Fréttir


Fréttir

Besta vísindagreinin árið 2015

28.6.2016

Þorbjörg Sævarsdóttir, starfsmaður á samgöngusviði EFLU, ásamt Sigurði Erlingssyni, prófessor hjá Háskóla Íslands, eru höfundar bestu vísindagreinar ársins 2015 sem birtist í alþjóðlega tímaritinu "Road Materials and Pavement Design". Greinin nefnist "Modelling of responses and rutting profile of a flexible pavement structure in a heavy vehicle simulator test" og er hluti af doktorsverkefni Þorbjargar frá Háskóla Íslands.
  • Malbikshönnun

Greinin fjallar um hvernig best er að meta þróun niðurbeygja og hjólfara í þunnum vegbyggingum. Þekking og skilningur á hegðun vegbygginga við mismunandi umhverfisskilyrði er nauðsynlegt innlegg í þróun nýrra aflfræðilegra hönnunaraðferða við burðarþolshönnun vega. Niðurbrotshegðun vega er háð mörgum ólíkum þáttum svo sem álagi, efnisvali, þykkt laga og umhverfisþáttum. En í dag er helsti veikleiki aflfræðilegra hönnunaraðferða takmörkuð þekking á áhrifum ýmissa umhverfisþátta, einkum hitastigs, frosts/þíðu, skipta og raka á efniseiginleika mismunandi laga vegarins og hver tengsl niðurbrot vegarins og umhverfisþáttanna eru. Þessir þættir eru mjög mikilvægir þegar verið er að skoða þunnar sveigjanlegar vegbyggingar, sem eru mjög algengar á norðurslóðum, þar með talið á Íslandi.

Til þess að meta niðurbrotsferli vegbygginga voru framkvæmd svokölluð hröðuð álagspróf þar sem vegbygging var prófuð með þungum bílhermi og svörun mæld sem fall af tíma. Þetta var gert til að kanna og greina hvaða áhrif þung umferð og aukinn raki hefðu á niðurbrot vegbyggingar þ.m.t. hjólfaramyndun. Þegar þessar aðferðir hafa verið fullhannaðar geta veghönnuðir spáð fyrir um niðurbrot vega sem fall af tíma og borið þannig saman ólíkar vegbyggingar og spáð fyrir um endingu þeirra.

20160628 MalbikBMyndirnar sem birtast með fréttinni tók Einar Gíslason hjá Vegagerðinni á Sauðárkróki

Greinin