Fréttir


Fréttir

Ný virkjun í Glerá ofan Akureyrar

2.2.2017

EFLA vinnur nú að byggingu nýrrar smávirkjunar í Glerá, ofan Akureyrar.
  • Glerárvirkjun

EFLA hefur um langt skeið unnið að fjölmörgum smávirkjanaverkefnum og hefur aðkoman að verkefnunum verið með ýmsum hætti. Þannig hefur EFLA séð um hönnun, unnið kostnaðar- og framleiðsluáætlun, aðstoðað við framkvæmdatilkynningar og leyfisveitingar ásamt því að sjá um umsjón með framkvæmdum. Um þessar mundir er unnið að nokkrum slíkum verkefnum og ber helst að nefna bygging nýrrar smávirkjunar í Glerá ofan Akureyrar.

Rafmagn fyrir 5.000 heimili

Stíflan verður ofarlega á Glerárdal og rennur vatnið í þrýstipípu niður með Glerárgili að stöðvarhúsi rétt ofan við við brúna á Glerá við Hlíðarbraut. Virkjunin verður 3,3 MW og ætti að geta séð um 5.000 heimilum fyrir rafmagni.

20170125 Glerarvirkjun 2

Umhverfisleg áhrif

Neðsti hluti Glerárgils er skilgreint náttúruverndarsvæði og því ljóst að framkvæmdin þurfti að fara eftir ströngum skilyrðum. Áhrif virkjunarinnar á umhverfið voru rannsökuð ítarlega, m.a. var fuglalíf, fiskgengd og annað náttúrufar rannsakað og úrskurðaði Skipulagsstofnun í kjölfarið að virkjunin skyldi ekki vera háð mati á umhverfisáhrifum. Mikið verður lagt upp úr góðum frágangi á svæðinu eftir að framkvæmdum lýkur auk þess sem sex kílómetra göngustígur verður lagður frá stöðvarhúsi að stíflu.

Aðkoma EFLU að verkefninu

Hlutverk EFLU að verkefninu fólst meðal annars í forathugun, framleiðslu- og kostnaðaráætlun, tilkynningu framkvæmdar vegna úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum, frumhönnun og útboð vél- og rafbúnaðar auk pípuefnis, hönnun þrýstipípu, verkhönnun stíflu og aðstoð við eftirlit og umsjón framkvæmda.

Þá má geta þess að EFLA Norðurland (áður Verkfræðistofa Norðurlands) sá um áætlanir, hönnun og verkefnastjórnun við endurbyggingu Glerárvirkjunar 1 árið 2004.

Fallorka reisir virkjunina og er áætlað að raforkuframleiðsla hefjist í árslok 2017.

20170125 Glerarvirkjun 3