Fréttir


Fréttir

Bygging hreinsistöðvar fráveitu á Akureyri

13.6.2018

Norðurorka skrifaði nýverið undir samning við verktakafyrirtækið SS Byggir um byggingu hreinsistöðvar fráveitu á Akureyri. EFLA hefur verið Norðurorku til halds og traust í þessu verkefni og sá um alla verkfræðihönnun, þ.e. hönnun á húsbyggingu, vélbúnaði og útrás. 

  • Hreinsistöð á Akureyri
    Sandgerðisbót á Akureyri þar sem nýja hreinsistöðin verður byggð.

Skólp á Akureyri hefur hingað til farið óhreinsað til sjávar um 90 m langa útrás sem opnaðist á um 10 m dýpi. Í nýrri hreinsistöð verður skólpið grófhreinsað og allt rusl síað burt. Því næst er skólpinu dælt til sjávar um nýja 400 m langa útrás sem opnast á um 40 m dýpi þar sem skólpið dreifist innan þynningarsvæðis. Skólp ætti því aldrei að komast að ströndinni eftir að framkvæmdum lýkur og mun draga úr magni saurkólígerla í sjónum við Akureyri. Jafnframt verður ástand sjávar vaktað með reglulegu millibili samkvæmt vöktunaráætlun. Gamla 90 m útrásin verður nýtt sem neyðarútrás.

Tvískipt hreinsistöð

Nýja hreinsistöðin verður ein af stærri hreinsistöðvum landsins og er nokkuð ólík fyrri stöðvum í útfærslu að því leyti að hreinsistöðin er tvískipt. Þannig er hægt að loka helming stöðvarinnar í einu fyrir skólprennsli og vinna að viðhaldi án þess að stöðva rekstur stöðvarinnar. Í þessum fyrsta áfanga er skólpið grófhreinsað en stöðin gerir ráð fyrir frekari hreinsun skólpins í framtíðinni þar sem aukaafurð verður nýtanleg seyra laus við allt rusl.

Tekin í notkun 2020

EFLA sá að auki um gerð útboðsgagna og allt umhverfismatsferlið sem lauk með jákvæðu áliti Skipulagsstofnunar í febrúar 2017. Gísli-arkitekt á Akureyri sá um arkitektúr hreinsistöðvarinnar.  Akureyrarbær veitti Norðurorku byggingarleyfi í byrjun júní og er miðað við að hreinsistöðin verði tekin í notkun vorið 2020. 

EFLA óskar Norðurorku og Akureyringum til hamingju með þennan áfanga í umhverfis- og heilbrigðismálum Eyjafjarðar. 

Nánar um verkefnið