Fréttir

Fastmerki í Rangárþingi

5.9.2017

Undanfarið hafa starfsmenn EFLU á Suðurlandi unnið að uppsetningu nýrra fastmerkja á Hellu og Hvolsvelli í samstarfi við sveitarfélögin Rangárþing Eystra og Rangárþing Ytra. Fastmerki eru notuð sem viðmiðunarpunktar fyrir mælitæki við landmælingar.

 

Eldri fastmerki á svæðinu voru ýmist orðin óaðgengileg vegna framkvæmda eða staðsetning þeirra orðin véfengjanleg vegna landreks undanfarinna áratuga.

Fastmerki í RangárþingiÞegar unnið er við landmælingar með GPS tækjum eru oftast notuð tvö tæki, annars vegar handtæki sem starfsmaður gengur um með, og hins vegar grunnstöð sem er stillt upp á fastmerki. Grunnstöðin og handtækið safna gögnum á sama tíma frá gervitunglum á braut um jörðu til að tryggja nákvæmni og rekjanleika í mælingum. Tækin hafa samskipti sín á milli með útvarpsbylgjum og því er heppilegra ef fastmerki, og þar með grunnstöðin, séu staðsett ofarlega, t.d. uppi á hæð eða hárri byggingu, til að tryggja örugg samskipti milli handtækis og grunnstöðvar. Einnig þarf huga að því að fastmerkið hreyfist sem minnst með tímanum, t.d. vegna hreyfinga á jarðvegi.

Fjölmörg mælingaverkefni í Rangárvallasýslu

Á undanförnum misserum hefur verið mikil aukning í mælingaverkefnum EFLU í Rangár­vallasýslu og má þar m.a. nefna mælingar í kringum nýbyggingu LAVA á Hvolsvelli, viðbyggingu við Dvalarheimilið Lund á Hellu, mælingar vegna fyrirhugaðra virkjana­framkvæmda í Þjórsá en auk þess hefur verið mikil aukning í landmælingum vegna landa og lóðamarka á svæðinu.

Nýju fastmerkin á Hellu og Hvolsvelli eru með ryðfríum gengjum þannig að hægt er að skrúfa grunnstöð beint á fastmerkið í stað þess að nota þrífót. Slíkt er mun fljótlegra í uppsetningu og niðurtekt auk þess sem sem minni líkur eru á mæliskekkjum vegna mistaka við uppstillingu búnaðar. Fastmerkið á Hvolsvelli er staðsett upp á hæð norðan við Stórólfs­hvolskirkju og fastmerkið á Hellu er við Ægissíðu.

Staðsetning nýju fastmerkjanna var mæld miðað við fastmerki frá Landmælingum Íslands.