Hafnarmannvirki með fjöll í baksýn.

Hafnarmannvirki í Nuuk

NuukByggingar

EFLA hannaði hafnarmannvirki sem er hluti af nýrri stórskipahöfn á Qeqertat í Nuuk, Grænlandi. Verkefnið er unnið í alverktöku með danska verktakafyrirtækinu Per Aarsleff fyrir Sikuki A/S.

Viðskiptavinur
  • Per Aarsleff
Verktími
  • 2015 - 2017
Þjónustuþættir
  • Brunahönnun
  • Burðarvirki
  • Hljóðvistarhönnun
  • Loftræsihönnun
  • Raflagnahönnun

Um hvað snýst verkefnið

Heildarverkefnið felst í stækkun hafnarinnar og hafnarsvæðisins í Nuuk ásamt byggingu mannvirkja á hafnarsvæðinu: skrifstofubyggingar, verkstæðis, pakkhúss, kæli- og frystihúss.

Ítarlegar tæknikröfur frá ráðgjöfum verkkaupa lágu til grundvallar fullnaðarhönnun mannvirkjanna. Umfang hafnarsvæðisins er um 50.000 m2 að stærð og heildarflatarmál bygginga er um 4.700 m2. Ný stórskipahöfn í Nuuk er mikilvæg samgöngubót fyrir Grænland en með þessari framkvæmd er fyrirséð að hún stuðli að enn frekari framkvæmdum á svæðinu og hafi þannig jákvæð áhrif á atvinnulíf á staðnum.

Mannvirkin sem EFLA sá um að hanna voru skrifstofubygging, vörulager, kæli- og frystigeymslur ásamt verkstæðisbyggingu.

EFLA sá um eftirfarandi þætti verkefnisins:

Burðarvirki bygginga

EFLA annaðist burðarþolshönnun allra bygginga á hafnarsvæðinu.

Skrifstofu­byggingin er sambyggð vöruhúsi er á þremur hæðum með samverkandi (e. composite) milligólfum og steypta veggi til láréttra stífinga. Aðrar byggingar voru útfærðar sem stálgrindarhús og voru unnar í samstarfi við Ruukki, stálframleiðanda með verksmiðju í Litháen.

Lagnir og loftræsing í byggingunum

EFLA sá um hönnun á öllum lagna- og loftræsikerfum í byggingunum.

Uppfylla þurfti strangar kröfur verkkaupa um gæði kerfa og innivist. Einnig þurfti að sýna fram á að hönnunin uppfyllti kröfur um orkunotkun með útreikningum skv. dönskum stöðlum. Hluti af vinnu var einnig eftirfylgni og úttektir á verkstað.

Rafmagn og rafkerfi

EFLA sá um hönnun allra rafkerfa í byggingar svæðisins.

Hönnunin innifelur almenna raflagnahönnun, lýsingarhönnun, brunaviðvörunarkerfi, öryggis- og aðgangsstýrikerfi, ásamt öllum fjarskiptalögnum (tölvu- og símalagnir). Hljóð og myndkerfi var útfært fyrir fundarherbergi. Á verktímanum var farið í eftirlit og eftirfylgni til Nuuk á verkstað. Allar teikningar og önnur gögn voru á dönsku.

Hljóðvist og hljóðhönnun

Áhersla var lögð á vandaða hljóðvist við hönnun hafnarbygginganna.

Verkkaupi gaf upp fyrirfram ákveðnar kröfur til hljóðeinangrunar, ómtímalengdar og hljóðstigs frá tæknibúnaði í skrifstofurýmum. Í hljóðhönnunni fólst að finna lausnir í samvinnu við aðra hönnuði sem að uppfylltu settar kröfur. Verkkaupi fór síðan fram á hljóðmælingar að verki loknu til að ganga úr skugga um að settar kröfur væru uppfylltar.

Heildarbrunahönnun allra mannvirkja

EFLA sá um heildarbrunahönnun allra mannvirkjanna.

Leitast var við að uppfylla óskir verkkaupa sem og lög og reglugerðir á sem hagkvæmastan hátt. Auknar kröfur voru á brunavörnum vörulagersins skv. dönskum reglum vegna stærðar og starfsemi.

Umhverfismál

Í verkefninu var þarfagreining og umhverfisskýrsla frá ráðgjöfum verkkaupa sem lá til grundvallar, þ.e. mat á umhverfisáhrifum með tilkomu stækkunar hafnarsvæðisins og dýpkunar hafnarinnar. Þessir þættir voru t.d. umhverfisleg áhrif á lífríki sjávar og útreikningar á auknum hávaða í tengslum við aukna umferð á svæðinu.

Hlutverk EFLU

EFLA annaðist heildarhönnun bygginga á hafnarsvæðinu þ.m.t.:

  • Verkefnastýringu
  • Hönnun burðarvirkja
  • Hönnun raflagna
  • Hönnun lýsingar
  • Hönnun brunaviðvöurnarkerfis ásamt öryggis- og aðgangsstýrikerfi
  • Hönnun hljóðvistar
  • Brunahönnun
  • Hönnun lagna og loftræsingar

Ávinningur verkefnis

Stækkun hafnarinnar hefur jákvæð áhrif á framkvæmdir og atvinnulíf Grænlendinga til skemmri og lengri tíma.