Byggingar

Hjúkrunarheimilið Dyngja á Egilsstöðum

Egilsstaðir, Fljótsdalshérað, Burðarvirki, Lagnakerfi, Loftræsikerfi, Raflagnir, Öryggisvarnir, Brunavarnir, Hljóðvist

EFLA kom að byggingu 3.300 m2 hjúkrunarheimilis á Egilsstöðum og sá um hönnun burðarvirkja, lagna- og loftræsikerfa, raflagna, öryggis- og brunavarna ásamt því að veita ráðgjöf um hljóðvist.

Upplýsingar um verkefnið

Verkkaupi
Fljótsdalshérað

Verktími
2012 - 2015

Staðsetning
Egilsstaðir

Tengiliður

Um hvað snýst verkefnið

Verkefnið var að hanna 3.300 m2 hjúkrunarheimili á Egilsstöðum. Byggingin er þrjár hæðir og er með sveigjanlegt burðarkerfi, þ.e. sumir hlutar af henni eru tvær hæðir en með möguleika á að byggja þriðju hæðina. Tenging er á þriðju hæð við eldri byggingu sem takmarkar salarhæð hússins og bjó til krefjandi verkefni við að koma fyrir nauðsynlegum lögnum og loftræsingu. 

Á hjúkrunarheimilinu eru 40 íbúðir og eru þær útbúnar fyrir íbúa sem hafa mismunandi þarfir og þurfa mismikla þjónustu. Einnig var lagt mikið upp úr aðgangsstýringum í húsinu til að tryggja öryggi þeirra íbúa sem eru með heilabilun.

EFLA sá um eftirfarandi þætti verkefnisins: 

Burðarvirki 

EFLA sá um hönnun burðarvirkja og grundunar en grundunarastæður voru að hluta til óhagstæðar þar sem klöpp á byggingarstað var mjög breytileg í hæð. 

Því var nauðsynlegt að hafa hluta hússins á lofti með háum undirstöðuveggjum sem ná allt að 8 m út frá þeim stað þar sem föstum botni var náð. Auk þess voru notaðir bergboltar til að tryggja stöðugleika hússins.

Verkefnið var hannað í 3D (Revit og MagiCAD) og útboðgögn og kostnaðaráætlanir útbúnar.  

Rafkerfi

EFLA hannaði raf- og öryggiskerfi ásamt lýsingarhönnun í íbúðir hjúkrunarheimilisins. Þess má geta að rafkerfi í heilbrigðisstofnanir eru fjölbreytt og gerðar eru meiri kröfur til öryggis íbúa en gengur og gerist í hefðbundnum híbýlum. 

Þannig er ávallt leitast við að gera byggingar þannig úr garði gerðar að íbúum líði vel, finni til öryggiskenndar og geti ferðast um án hindrana. 

Rétt hönnuð öryggiskerfi og lýsing skipta þar miklu máli. Sjónin dofnar oft með aldrinum og því er mikilvægt að huga vel að góðri lýsingu. Öflugt öryggiskerfi fylgist með íbúum og gerir þeim jafnframt kleift að láta vita af sér þegar á þarf að halda.

Öryggis- og brunavarnir

Útbúnar voru öflugar öryggis- og brunavarnir með bæði sjálfvirku vatnsúðakerfi og brunaviðvörunarkerfi. 

Við val á brunakerfi og útfærslu þess var hugað sérstaklega að öryggi notenda og rýmingarvörnum og tryggja hagkvæmar brunarvarnir. 

Lagna- og loftræsihönnun

Góð loftræsing er afar mikilvæg fyrir heilbrigðisstofnanir og nauðsynlegt að mannvirkin séu hönnuð með öryggi og heilsu notenda í fyrirrúmi. 

Þannig getur góð loftræsing og þrif dregið úr líkunum á að sjúkdómar berist á milli fólks og einnig haft áhrif á líðan fólks.

EFLA hannaði lagna- og loftræsikerfi þar sem brunahætta er lágmörkuð og útbúin þannig að hættulegar bakteríur geta ekki myndast í neysluvatninu. 

Hljóðvist

EFLA sá um hljóðhönnun þar sem meðal annars þurfti að huga að hljóðeinangrun á milli rýma, ómtíma og hljóðvist innan rýma, frágangi gólfefna og hljóðstigi frá tæknibúnaði.

Á hjúkrunarheimilum er góð hljóðvist mikilvæg fyrir heilsu og vellíðan bæði íbúa og starfsfólks. 

Umhverfismál

Byggingin er í vottunarferli fyrir BREEAM vistvottunarkerfi.


Hjúkrunarheimilið - EgilsstaðirSvalir við hjúkrunarheimilið á Egilsstöðum

Hjúkrunarheimilið - Egilsstaðir - byggingartímiFrá verktíma

Hjúkrunarheimilið - Egilsstaðir - byggingartímiFrá verktíma, klöppin er ansi myndarleg

Hjúkrunarheimilið - EgilsstaðirFrá framkvæmdatíma

Hjúkrunarheimilið - EgilsstaðirÚtsýnið er alveg magnað

Hjúkrunarheimilið - EgilsstaðirHjúkrunarheimilið - fyrir stækkun


Var efnið hjálplegt? Nei