Orka

Búðarhálsvirkjun

Rangaárvallaskýrsla, Vatnsfallsvirkjun,

Verkefnið fólst í verk-, útboðs- og deilihönnun mannvirkjahluta Búðarhálsvirkjunar auk ýmissar ráðgjafar í tengslum við verkefnið yfir þann tíma sem það stóð.

Upplýsingar um verkefnið

Verkkaupi
Landsvirkjun

Verktími
2008 - 2014

Staðsetning
Rangárvallasýsla, Íslandi

Tengiliðir

Um hvað snýst verkefnið

Í upphafi árs 2008 ákvað Landsvirkjun að endurskoða og ljúka verkhönnun Búðarhálsvirkjunar sem fram til þess tíma hafði verið ýmist inn á eða út af framkvæmdaáætlunum. Þrátt fyrir efnahagshrunið síðla árs 2008 ákvað Landsvirkjun að halda áfram og ljúka verkhönnun og tengdri undirbúningsvinnu. Í upphafi árs 2010 var hafist handa við undirbúning útboða og voru verksamningar undirritaðir það sama ár. Búðarhálsvirkjun var gangsett í mars 2014.

Búðarhálsvirkjun er síðasta virkjunin í keðju virkjana sem virkja vatnasvið Þjórsár og Tungnaár, fallið frá Þórisvatni að Fossá sem frávatn Búrfellsvirkjunar fellur í. Búðarhálsvirkjun virkjar um 40 m fall milli Sporðöldulóns sem frávatn Hrauneyjafossvirkjunar fellur í og Sultartangalóns þar sem Þjórsá og Tungnaá koma saman. Rekstrarhæð Sporðöldulóns er 337,0 m y.s. og Sultartangalóns 297,2 m y.s.

Uppsett afl Búðarhálsvirkjunar er 94 MW, tveir 47 MW Kaplan hverflar, og er orkugeta hennar 585 GWst á ári.

Um Búðarhálsvirkjun

Búðarhálsvirkjun samanstendur af; 7 km² rekstrarlóni, 4 km aðrennslisgöngum í gegnum Búðarháls sem enda í sveifluþró, inntaki þrýstipípa sem situr í neðri enda sveifluþróar, tveimur þrýstipípum sem liggja frá inntaki að stöðvarhúsi og stuttum frávatnsskurði í Sultartangalón.

Sporðöldulón er haldið uppi af tveimur 26 m háum jarðvegsstíflum og 170 m löngu yfirfalli með yfirfallshæð 337,3 m y.s. Vatn á yfirfalli fellur í nýjum farvegi í Tungnaá. Flóknar vatnveitingar áttu sér stað á framkvæmdatíma svo byggja mætti yfirfall og stíflur með ásættanlegri áhættu. Önnur mannvirki sem tengd eru Sporðöldulóni, og voru hluti verkefnisins voru; i) hækkun vegar 26, Sprengisandsleið, þar sem hann þverar frávatnsþröskuld Hrauneyjafossvirkjunar, ii) innrennslisskurður úr Tungnaá ásamt veituyfirfalli sem leiðir vatni úr Tungnaá í Sporðöldulón þegar vatn er í farvegi hennar, og iii) veituskurður sem bætir flæði vatns milli norður- og suðurhluta lónsins.

Aðrennslisgöng Búðarhálsvirkjunar

Aðrennslisgöng Búðarhálsvirkjunar liggja um fjölbreyttan jarðlagastafla. Að austanverðu eru þykk og mikil basaltlög en eftir því sem vestar dregur koma inn í staflan þykk setlög en vestast í Búðarhálsinum er að finna líparítmyndun. 

Undir miðjum hálsinum eykst ummyndun bergsins umtalsvert vegna jarðhitavirkni sem tengist nálægum fornum eldstöðvakerfum. Aðrennslisgöngin eru sporöskjulöguð, 140 m² í þverskurðarflatarmál, 14,7 m há, breiðust 11,3 m en 9,3 m í botninn. Göngin tengjast Sporðöldulóni með rúmlega 400 m löngum aðrennsliskurði. Í andstreymismunna ganganna er steinsteypt inntak. Aðrennslisgöngin opnast inn í sveifluþró sem hefur aðgengi um nær 100 m löng skeifulaga aðgöng, 6 m há og breið. Í aðgöngunum miðjum er steyptur opinn tappi útbúinn hlerahurð.

Neðst í sveifluþró er steinsteypt inntak þrýstipípa, 33 m hátt. Hvort inntak þrýstipípa er útbúið ristarlokum, hleraloku og hjólaloku. Forstreymis við hjólalokur tengist inntakinu tvær niðurgrafnar umsteyptar stálþrýstipípur, með innra þvermál 5,8 m, en 52 m eru milli forstreymisveggs inntaks og andstreymisveggs stöðvarhúss.

Stöðvarhús virkjunarinnar

Ofanjarðarstöðvarhús Búðarhálsvirkjunar er hefðbundið, 56,4 m að lengd, 40,2 m á hæð mælt frá botni sogrása á efstu brún þaks vélarsals sem er 15,6 m breiður. Breidd stöðvarhúss er mest 27,1 m á rafalagólfi. Stöðvarhúsið hýsir tvo hverfla ásamt rafölum auk alls fylgi-, varnar- og stjórnbúnaðar. 

Undir þaki vélasals eru tveir 75 tonna stöðvarhúskranar. Tvær tvískiptar sográsir eru útbúnar hleralokum. Akfært er umhverfis stöðvarhúsið. Milli vélasalar og sográsabrúar eru spennaþrær hvorutveggja véla og stöðvarhússnotkunarspenna. Frá stöðvarhúsinu liggja niðurgrafnir háspennustrengir að tengivirki Landsnets sem liggur rúma hundrað metra í vestur frá stöðvarhúsinu.

Framleiðandi hverfla var Voith Hydro GmbH & Co. KG og er hvor þeirra 47 MW við málhæð 36,1 m (net), málrennsli 140 m3/s og málsnúning 166,67 mínútu-1.

Framleiðandi rafala var VG Power (Svíþjóð), og er hvor þeirra 52 MVA x 0,90, 11 kV ±5% V, Y við málsnúning 166,76 mínútu-1.

Frá stöðvarhúsi liggur um 500 m langur frárennslisskurður út í Sultartangalón.

Umhverfismál

Verkefnið í heild sinni undirgekkst á sínum tíma lögbundið ferli um mat á umhverfisáhrifum. Öll hönnun Búðarhálsvirkjunar sem og útfærslur tóku mið af niðurstöðum og úrskurði MÁU og stefnu Landsvirkjunar í umhverfis- og öryggismálum.

Hlutverk EFLU

EFLA var aðalráðgjafi Landsvirkjunar við undirbúning og framkvæmd Búðarhálsvirkjunar.

Landsvirkjun ákvað að mannvirkjahlutar Búðarhálsvirkjunar yrðu boðnir út í samræmi við útboðs- og verksamningsskilmála FIDIC, Conditions of Contract for Construction (First Ed. 1999), sem kallaði á heildar endurskoðun og endurgerð útboðs- og verksamningsskilmála Landsvirkjunar sem EFLA átti stóran þátt í að gera.

Helstu verkefni EFLU í Búðarhálsvirkjun voru:

  • Verkhönnun mannvirkja
  • Umsjón með og aðalhöfundur hönnunarforsenda í samráði við Landsvirkjun og aðra ráðgjafa
  • Útboðshönnun mannvirkja
  • Endurgerð útboðs- og verkskilmála virkjanaframkvæmda
  • Endurskoðun og endurgerð verklýsinga virkjanaframkvæmda
  • Verkáætlanir
  • Kostnaðaráætlanir
  • Verkefnisáhættugreining
  • Framkvæmdaáhættugreining, Occupational Health & Safety Assessment Series (OHSAS)
  • Aðstoð við verksamningagerð
  • Deilihönnun
  • Samræmingarhönnuðir
  • Ýmis ráðgjöf á framkvæmdatíma
  • Aðstoð við úrlausn ágreinings
  • Auk ýmissa annara verkefna s.s. minni verksamningar, lokafrágangur og annað

Var efnið hjálplegt? Nei