Orka

Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar

Landsvirkjun, Þjórsá, Umhverfisáhrif

EFLA framkvæmdi mat á umhverfisáhrifum á tveimur umhverfisþáttum fyrirhugaðrar 95 MW Hvammsvirkjunar í Þjórsá, þ.e. áhrif virkjunarinnar á ferðaþjónustu og útivist annars vegar og landslag og ásýnd lands hins vegar. 

Upplýsingar um verkefnið

Verkkaupi
Landsvirkjun

Verktími
2015 - 2017

Staðsetning
Þjórsá

Tengiliður

Um hvað snýst verkefnið

Matið er unnið í kjölfar endurskoðunar mats á umhverfisáhrifum virkjunar við Núp sem fram fór á árunum 2001-2003 en niðurstaða Skipulagsstofnunar var sú að endurskoða þyrfti ofangreinda umhverfisþætti. Auk matsins vann EFLA ítarlega landslagsgreiningu og gerði samfélagskönnun á viðhorfi íbúa og sumarhúsaeigenda á svæðinu til áhrifa fyrirhugaðrar virkjunar á landslag og ásýnd lands.

Fyrirhuguð Hvammsvirkjun verður sjöunda vatnsaflsstöðin á stærsta vinnslusvæði Landsvirkjunar, vatnasviði Þjórsár, Tungnaár og Köldukvíslar. Tilgangur framkvæmdarinnar er að nýta fall og miðlað rennsli Þjórsár frá Yrjaskeri og niður fyrir Ölmóðsey með því að reisa allt að 95 MW vatnsaflsvirkjun í farvegi árinnar við Hvamm. Á svæðinu eru nú þegar sex aflstöðvar sem nýta fall Þjórsár, Tungnaár og Köldukvíslar.

EFLA vann að endurskoðuðu umhverfismati fyrir hönd Landsvirkjunar þar sem leitað var álits sérfræðinga við gerð matsáætlunar og samantekt frummatsskýrslu.

Endurskoðað mat á umhverfisáhrifum

Mati á umhverfisáhrifum fyrir Hvammsvirkjun lauk árið 2004. Ef framkvæmdir hefjast ekki innan tíu ára þarf Skipulagsstofnun, skv. 12. grein laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum að ákveða hvort endurskoða beri matið í heild eða að hluta ef forsendur hafa breyst verulega frá því að álitið lá fyrir. 

Árið 2015 hófst endurskoðunarferli og tók EFLA saman skýrslu þar sem fyrirliggjandi gögn voru rýnd fyrir hvern metinn umhverfisþátt. 

Í skýrslunni var lagt mat á hvort tilefni væri til þess að endurskoða matið að hluta eða í heild með tilliti til nýrra upplýsinga og breytinga í lagaumhverfi. Í kjölfar þessarar vinnu ákvarðaði Skipulagsstofnun árið 2015 að endurskoða þyrfti tvo umhverfisþætti í tilfelli Hvammsvirkjunar en að ekki væru forsendur til að endurmeta aðra umhverfisþætti frá fyrra mati. 

Þeir þættir sem skyldi endurskoða með nýju mati á umhverfisáhrifum væru ferðaþjónusta og útivist annars vegar og landslag og ásýnd lands hins vegar.

Umhverfismál

Virkjanir með yfir 10 MW í uppsettu afli eru alltaf matsskyldar. Hefjist framkvæmdir ekki innan tíu ára frá því að mati á umhverfisáhrifum lýkur þarf Skipulagsstofnun, skv. lögum nr. 106/2000, að ákveða hvort endurskoða beri matið í heild eða að hluta.

Hlutverk EFLU

  • Ráðgjafi Landsvirkjunar í mati á umhverfisáhrifum, samráði og kynningum
  • Ritstjórn og samantekt rýniskýrslu þar sem rýnt var í eldra mat, breytingar á lagaumhverfi og nýjar upplýsingar frá fyrra umhverfismati
  • Samantekt og gerð matsáætlunar
  • Samantekt og ritstjórn frummatskýrslu
  • Samskipti við sérfræðinga í landslagsgreiningum og ferðaþjónustu
  • Umsjón og framkvæmd viðhorfskönnunar meðal íbúa á svæðinu til að meta áhrif á landslag og ásýnd lands
  • Mat á sjónrænum áhrifum og áhrifum á landslag, unnið í samstarfi við aðra sérfræðinga og ráðgjafa


Var efnið hjálplegt? Nei