Árangur EFLU
„Þetta er okkur hvatning að halda áfram og auk þess passa verðlaunin vel við þá stefnu sem hefur verið sett fram síðasta ár, það sem við köllum Alþjóðleg EFLA.“ | Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri.
ÚTFLUTNINGSVERÐLAUN FORSETA ÍSLANDS
EFLA hlaut Útflutningsverðlaun forseta Íslands árið 2022 en verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í júní. EFLA hefur lagt áherslu á alþjóðlega þróun með útflutningi á hugviti og þekkingu í á annan áratug. „Þetta er okkur hvatning að halda áfram og auk þess passa verðlaunin vel við þá stefnu sem hefur verið sett fram síðasta ár, það sem við
köllum Alþjóðleg EFLA,“ sagði Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU, af þessu tilefni.
FRAMÚRSKARANDI FYRIRTÆKI
EFLA er á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2022 samkvæmt mati Creditinfo 13. árið í röð og er jafnframt eitt af 56 fyrirtækjum sem hefur verið á listanum frá upphafi.
HUGMYNDASAMKEPPNI UM ÞVERUN REYKJANESBRAUTAR
EFLA hlaut önnur verðlaun í opinni hugmyndasamkeppni Kópavogsbæjar, í samstarfi við Arkitektafélag Íslands, um þverun Reykjanesbrautar og svæðiskjarna í Smára með tillögu sinni Smárahvammur.
GRÆNA SKÓFLAN
Starfsfólk EFLU tók þátt í endurbótum á leikskólanum Brákarborg sem hlaut verðlaunin Græna skóflan 2022, en verðlaunin voru veitt á Degi grænni byggðar í október. Þáttur starfsfólks EFLU var að gera vistferilsgreiningu fyrir endurbæturnar og bera kolefnisspor endurbótanna saman við samsvarandi nýbyggingu, til að draga fram ávinninginn af endurbótunum. Þetta var í fyrsta sinn sem kolefnisspor endurbóta var reiknað á Íslandi.
BREEAM SJÁLFBÆRNIVOTTUN SJÚKRAHÓTELSINS
Í apríl var formlega afjúpaður viðurkenningarskjöldur vegna BREEAM umhverfisvottunar á sjúkrahótelinu við Hringbraut. Helga J. Bjarnadóttir, sviðsstjóri hjá EFLU og BREEAM matsmaður, leiddi vinnuna við umhverfisvottunina fyrir hönd SPITAL hópsins svokallaða sem sá um skipulagsgerð og forhönnun sjúkrahótelsins.
RAMMASAMNINGUR VIÐ CARBFIX
Í febrúar undirrituðu fulltrúar EFLU rammasamning við fyrirtækið Carbfix, sem er hluti af Orkuveitu Reykjavíkur. Samkvæmt samningnum mun EFLA sjá um ráðgjafarþjónustu, hönnun og framkvæmdaeftirlit á Coda Terminal fyrir Carbfix. Um er að ræða þverfagleg verkefni sem hafa snertingu við flest svið EFLU en fyrirtækið er leiðandi í ráðgjöf er kemur að umhverfis- og
loftslagsmálum.
EFLA AÐALEIGANDI HECLA SAS
EFLA varð aðaleigandi franska verkfræðifyrirtækisins HECLA SAS eftir að gengið var frá kaupum EFLU á eignarhlutum Landsvirkjunar, í gegnum dótturfélagið Landsvirkjun Power, og Jean Chauveau í fyrirtækinu.
STYRKIR FRÁ UMHVERFIS-ORKU-OG LOFTLAGSRÁÐUNEYTINU
Tvö nýsköpunarverkefni EFLU og samstarfsaðila fengu styrki frá Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu vegna verkefna sem ætlað er að efla hringrásarhagkerfið. Annars vegar er um að ræða verkefnið Auðlindahringrás í rekstri og hins vegar Hringrásarveggur - efnisval,
efnisgæði og hönnun.