Fagið

Hljóðvist í opnum vinnurýmum

feb. 28, 2020 Fagið

Á síðustu árum hefur orðið ákveðin vitundarvakning um mikilvægi hljóðvistar. Áhugi á hljóðvist og hljóðvistarhönnun í umhverfi okkar hefur aukist. Fjölmargar rannsóknir staðfesta að vönduð hljóðvist hefur mikið að segja um skilvirkni, næði, vinnufrið og almenna vellíðan.

Hvernig er hávaði skilgreindur?

Hávaði er skilgreindur sem óæskilegt eða of hávært hljóð. Það er einstaklingsbundið hversu móttækilegur einstaklingur er gagnvart hávaða og hávaðaáreiti. Við hávaðaáreiti skiptir styrkurinn miklu máli, tíðnin og hvort að hljóðið endurtekur sig. Það sem sagt er ekki alveg sama hvernig hljóðið eða hávaðinn er. Segja má að hljóðgjöfum í umhverfi okkar fjölgi hratt samtímis aukinni vitundarvakningu um hljóðvist og innivist . 

Til þess að mæta þessum aðstæðum hafa kröfur í umhverfi okkar aukist bæði í umhverfi okkar innandyra og utandyra. Á sama tíma hefur húsnæði verið að breytast, þetta á til dæmis við um skrifstofuhúsnæði með opnum vinnurýmum og skólabyggingum með opnum kennslustofum.

Opið vinnurýmiÍ opnum vinnurýmum skiptir miklu máli að vandað sé til hljóðvistarhönnunar.

Hver eru neikvæð áhrif of mikils hávaða?

Neikvæð áhrif hávaða eru mikil og oft lúmsk. Fjöldi rannsóknaniðurstaða sýna fram á að of mikill hávaði getur meðal annars valdið:

  • Streitu sem er einn helsti skaðvaldur nútímans. Hjartasjúkdómar, ónæmiskerfi, magasjúkdómar, andlegir sjúkdómar o.fl., og getur valdið fjarvistum frá vinnu.
  • Svefntruflunum en afleiðingar þeirra eru t.d. þreyta, skert afkastageta, skert einbeiting, lundin versnar.
  • Auknum líkum á hjarta- og æðasjúkdómum. Hækkaður blóðþrýstingur. Áhrif á hjartslátt og súrefnisupptöku.
  • Heyrnarskaða og þ.a.l. skert samskiptageta, eyrnasuð, aukin hætta á félagslegri einangrun, o.fl. Um 20% einstaklinga búa við heyrnarskaða á einhverju stigi og fer það hlutfall hækkandi.
  • Sterku sambandi á milli hávaða í skólum og skertrar getu barna til að læra. Eins milli afkastagetu starfsmanna, einbeitingar, skammtímaminnis og hávaða á vinnustað.
  • Hávaði hefur áhrif á vitsmunalega getu (e. cognitive performance) fólks og félagslega hegðun.
  • Hávaði og slæm hljóðvist eykur líkur á raddtengdum veikindum.

Á sama hátt má segja að vönduð hljóðvist hefur jákvæð áhrif á notenda rýmis. Áreiti frá öðrum notendum eða hávaði frá tæknibúnaði getur haft afgerandi áhrif á einbeitingu og afköst. Þar sem samskipti eru mikilvæg getur of hljómmikið rými eða bakgrunnshávaði minnkað skilvirkni. Einnig getur of dempað rými orðið til þess að talað mál berist ekki til allra tilheyrenda.

Stór opin rými með hörðum flötum hafa gjarnan langan ómtíma og óþægilegan glymjanda. 

Reynslan sýnir að æskileg lengd ómtíma hefur talsvert að segja varðandi ánægju notenda og skal viðmið fyrir ómtíma hæfa notkun sérhvers rýmis. 

Ómtími er tíðniháður og er mikilvægt að hann sé sem jafnastur yfir tíðnisviðið fyrir sérhvert rými. Þegar ómtími rýmis er of langur þá magnast upp þau hljóð sem myndast í rýminu. Á það jafnt við um talað mál, hávaða frá tæknibúnaði (ísskápur, uppþvottavél, prentari, tölvur o.s.frv.) eða erilhávaða. Þannig verður aukin truflun sem getur haft áhrif á einbeitingu, minnkað afköst og vanlíðan notenda. Hæð og lögun rýmis ásamt efnisvali í rýminu hafa áhrif á ómtímalengd rýmisins. 

Mikilvægt að huga að hljóði frá tæknibúnaði

Huga þarf að hljóðstigi frá öllum tæknibúnaði en einnig er mikilvægt að hljóðeinangrun milli rýma uppfylli settar kröfur hverju sinni, til þess að lágmarka bakgrunnshávaða og tryggja að samtöl heyrist ekki milli rýma. Í fundarherbergjum þarf til viðbótar að tryggja góðan skiljanleika talaðs máls. Í minni rýmum, svo sem fundarherbergjum o.þ.h., þar sem að veggir eru gjarnan samsíða er ekki síður mikilvægt að koma fyrir klæðningum á veggi til að koma í veg fyrir að hljóðið kastist á milli harðra samsíða flata.

Heppilegast að vanda til verka frá byrjun

Ákjósanlegast er að huga að hljóðvist rýma á fyrstu stigum hönnunar en með því móti eru auknar líkur á að hagkvæmar lausnir verði fyrir valinu sem falla vel að annarri hönnun. Mikilvægt er að átta sig á því allir þættir í opnum vinnurýmum, loft, veggir og gólf, hafa áhrif á hljóðvist rýmisins og ef hönnun hljóðvistar í einum þætti er ábótavant getur það komið niður á heildarhljóðvist og upplifun af rýminu. 

Þá er mikilvægt að skilgreina hávaðasöm svæði, s.s. kaffistofur, prentkjarna og annars konar starfsemi sem kann að hafa truflandi áhrif inn á vinnusvæði og staðsetja þau þannig að þau valdi sem minnstri truflun, með hljóðeinangrandi veggjum og/eða öðrum lokunum.

Sýnt hefur verið fram á að hljóðvist sem virkar ekki sem skyldi ýtir einna mest undir óánægju meðal notenda um innivist rýmis.

Gott hljóðísogsloft er mikilvægt en dugir öllu jafna ekki til eitt og sér í stórum rýmum heldur þarf einnig að hafa hljóðísogandi efni í rýminu til að hljóðdempa rýmið. Þau geta verið í formi veggjaklæðninga, hljóðísogsfleka, skilrúma milli starfsstöðva eða húsgagna.

Hvað veldur mestu ónæði í opnum vinnurýmum?

Sýnt hefur verið fram á að talað mál og símhringingar valda mestu ónæði í opnum vinnurýmum.

  • Um 40% kenna hljóðvistinni um að erfitt sé að leysa verkefni í opnum vinnurýmum.
  • Sýnt hefur verið fram á að gera má ráð fyrir 7% minnkun í framlegð á flóknum verkefnum þegar önnur samtöl heyrast skilmerkilega.

Mikilvægt er að til staðar séu rými sem hægt er að eiga einka- og/eða trúnaðarsamtöl, eða þegar ætlunin er að trufla ekki aðra aðila í vinnurýminu.

Almennt séð er talað um að 60% starfsmanna í opnum vinnurýmum segjast stoppa og spjalla við vinnufélaga á göngum og við aðrar vinnustöðvar. Um 60% segjast fá gagnlegar upplýsingar við að yfirheyra samtöl annarra og 60% segjast getað afkastað meiru ef að það væri minni hávaði. Um 56% telja mikilvægt að eiga möguleika á því að geta lokað sig af en allt að 50% telja hávaða hamla afköstum þeirra.

Niðurstöður rannsókna

Rannsóknir sýna einnig að marktæk fylgni er á milli fjarveru vegna veikinda og hávaðaáreitis í opnum vinnurýmum. Því flóknari og meira krefjandi sem verkefnin eru því sterkari verður fylgnin.10 Áætla má að um 60% vinnutímans í opnum skrifstofurýmum sé varið í verkefni sem krefjast einbeitingar.4 Einbeiting er lík svefni og skiptist í nokkur stig. Að meðaltali tekur það starfsmann 25 mínútur að snúa sér aftur að verkefni eftir truflun og aðrar 8 mínútur þar til að starfsmaðurinn hefur náð sömu einbeitingu og fyrir truflun.5

Að lokum getur góð hljóðvist dregið úr adrenalíni um 30%6, aukið verkefnahvöt um 66%6, aukið framlegð í verkefnum sem að krefjast einbeitingar um 50%9 og skerpt á hugarreikningi um 20%.8

Skýr krafa byggingarreglugerðar

Samkvæmt byggingarreglugerð þá skulu byggingar hannaðar þannig að óþægindi vegna hávaða innan rýma, frá aðliggjandi rýmum, lögnum, tæknibúnaði og hljóðgjöfum utandyra séu takmörkuð.

Í byggingarreglugerð er vísað til staðalsins ÍST45:2016 Hljóðvist – Flokkun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Í ÍST45 eru eftirfarandi gæðaflokkar hljóðvistar skilgreindir:

  • Flokkur A: Sérstaklega góðar aðstæður hvað hljóð varðar. Einstaklingar verða aðeins örsjaldan fyrir truflunum vegna hljóðs eða hávaða.
  • Flokkur B: Umtalsvert betri hljóðvist heldur en þau viðmiðunargildi sem sett eru í flokki C. Einstaklingar geta í einstaka tilfellum orðið fyrir truflunum vegna hljóðs eða hávaða.
  • Flokkur C: Viðmiðunargildi fyrir nýbyggingar og fyrir breytingar á byggingum þar sem sömu kröfur eru gerðar og í nýbyggingum. Búast má við að allt að 20% einstaklinga verði fyrir truflunum vegna hljóðs eða hávaða. 
  • Flokkur D: Viðmiðunargildi fyrir þegar byggðar byggingar og endurgerðir eldri bygginga sem ekki skulu uppfylla flokk C.

Í byggingarreglugerð er kveðið á um að hljóðvistarhönnun nýbygginga skuli að lágmarki uppfylla kröfur hljóðvistarflokks C í ÍST45:2016. Kröfur skulu uppfylltar í samræmi við fyrirhugaða notkun byggingarinnar.

Opid-vinnurymiHljóðdeyfing og hljóðeinangrun milli rýma hefur jákvæð áhrif á hljóðvist.

Hvernig hugum við að góðri hljóðvist?

Til þess að vel takist til skal huga að eftirfarandi atriðum:

  • Stytta ómtímalengd rýma og huga að talskilningi í fundarherbergjum og fyrirlestrarrýmum.
  • Huga að hljóðdeyfingu innan opinna vinnurýma og tryggja næði (e. speech privacy).
  • Hljóðeinangrun milli rýma.
  • Huga að tæknibúnaði byggingarinnar; hljóðstig frá loftræsibúnaði, skjávörpum, tölvum, lögnum o.fl..
  • Huga að hávaða sem berst inn utanfrá, t.d. bílaumferð, hávaði frá leiksvæði, vindgnauð o.fl. Nota byggingartæknilegar lausnir eins og hljóðláta loftun og hljóðvarnargler.
  • Huga að öllum hljóðuppsprettunum – líka notendum/starfsmönnum.
  • Hafa hentuga stærð á hverju og einu vinnusvæði, ekki of fjölmennt og ekki of fámennt.
  • Huga að vinnulagi á hverju og einu vinnusvæði
  • Ekki blanda saman hlutverkum sem ólíka starfshætti, t.d. símsvörun og einbeitingarvinnu.
  • Raða starfsfólki upp eftir „áreiti“ og viðveru.
  • Hafa nóg af símaklefum og fundarherbergjum, ásamt rýmum til að breyta um umhverfi. Hafa síma og tölvur í fundarherbergjum sem starfsmenn geta tengst.
  • Huga að gönguleiðum, eins og að fundarherbergi, kaffistofur og salerni opnist ekki út í opin vinnurými.
  • Skipulag, loftgæði og hljóðvist ákaflega mikilvæg.
  • Almennar umgengisreglur.

Viltu vita meira?

Starfsfólk EFLU hefur yfir að ráða mikilli þekkingu og reynslu í hljóðhönnun bygginga af öllum stærðum og gerðum hvort sem um er að ræða nýbyggingar eða endurbætur á húsnæði.

Hafðu endilega samband við okkur ef þú vilt fá upplýsingar um ráðgjöf tengd betri hljóðvist.

Hafa samband



Heimildir

1 ÍST14:2016 Hljóðvist – Flokkun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, útgefið í maí 2016, Staðlaráð Íslands.

2 Hermann Miller, Inc.(2007). It is a matter of balance. Acoustics in Open Plan. Sótt af http://www.hermanmiller.com/content/dam/hermanmiller/documents/research_summaries/wp_Matter_of_Balance.pdf

3 DeMarco, Lister,(1985). Programmer performance and the effects of the workplace. ICSE ‘85 Proceedings of the 8th international conference on Software engineering.

4 Brill, Weidemann, BOSTI, (2001). Disproving Widespread Myths about workplace design, BOSTI associates.

5 Mark, Gonzalez,(2005). No Task Left Behind? Examining the Nature of Fragmented Work, University of California – Irvine.

6 Evans, Johnson, (2000). Cornell university, Stress and open office noise. Journal of Applied Psychology, 2000 vol. 85, no. 5, 779–783.

7 Weinstein. (1974). University of California, Berkeley. Effect of noise on intellectual performance. Journal of Applied Psychology 1974, vol. 59, no 5, 548–554.

8 Banbury, Berry. (1998). The disruption office-related tasks by speech and office noise. British Journal of Psychology, 89, 499–517.

9 KL Jensen, E Arens, L Zagreus (2002). Proceedings: Indoor Air 2005, „Acoustical quality in office workstations, as assessed by occupants surveys”.

10 Fried et al. The joint effects of noise, job complexity and gender on employee sickness absence. Journal of Occupational and Organizational Psychology, 75, 131–144.

11 U.S. General Services Administration Public Buildings Service. (Des 2011). Sound Matters, How to achive acoustic comfort in the contemporary office. Sótt af https://www.wbdg.org/ccb/GSAMAN/gsa_soundmatters.pdf 

Starfsfólk af byggingarsviði skrifaði greinina. Aðalhöfundar eru Guðrún Jónsdóttir og Gígja Gunnlaugsdóttir.