Samfélagið

EFLA er þér innan handar

maí 26, 2020 Samfélagið

Höfundur

Þrátt fyrir mikla erfiðleika sem fylgdu COVID-19 faraldrinum erum við farin að sjá ýmislegt jákvætt sem mun leiða af því ástandi sem kom upp meðan við unnum okkur í gegnum hremmingarnar. Aukið hreinlæti og meiri meðvitund um smitvarnir mun vonandi draga úr veikindum fólks til frambúðar og þeir sem ekki höfðu tileinkað sér fjarfundi neyddust til að læra á slík kerfi, aðlaga sig að nýjum aðstæðum og nota fjarfundarbúnað í vinnu og í skólastarfi. Það kom á óvart hversu vel gekk að halda áfram með mörg störf þótt ekki mætti hittast í eigin persónu vegna samkomubanns og tveggja metra reglu. 

Þetta fyrirkomulag varð til þess að við hjá EFLU fórum að dusta rykið af gamalli hugmynd um að veita ráðgjöf á skjótu formi án þess að hittast augliti til auglitis og nýta okkur þannig fjarfundarfyrirkomulag meira. Þar sem margir voru óvænt fastir heima vegna sóttkvíar eða breyttra aðstæðna í atvinnumálum spurðum við okkur hvort ekki væri tækifæri til að bjóða þessa þjónustu í fjarráðgjöf. 

Snjalltækin nýtt til að veita ráðgjöf

Úr varð að við útfærðum hugmynd að nýrri þjónustu sem fer fram í gegnum símtal eða með myndsamtali. Ætlunin er að fólk sem vill sinna viðhaldi og endurbótum á húsnæði sínu geti með sem hagkvæmustum hætti notið þeirrar miklu reynslu sem sérfræðingar okkar búa yfir og átt gagnlegt ráðgjafarsamtal gegnum snjalltæki. Það er jafnvel hægt að sýna ráðgjafanum viðfangsefnið heima fyrir án þess að hann þurfi að mæta á staðinn. Aukin myndgæði fjarfundarkerfa og myndsamtala ásamt útbreiddari notkun þeirra eftir COVID-19 ástandið gerir það að verkum að minni þörf er á að ráðgjafar okkar komi á staðinn og slíkt getur sparað bæði tíma og lækkað kostnað.

Allir kannast við að hafa hugmyndir um endurbætur á húsnæði sínu en málin eru strand vegna þess að það er óvissa um hvort hugmyndin sé raunhæf, hvernig skuli standa að breytingunum og hver kostnaðurinn gæti verið.

Með þessari nýju þjónustu vonumst við til þess að geta liðsinnt fasteignaeigendum til að komast áfram með sín mál og það með minni tilkostnaði en áður. Hægt er að fá góð ráð til að finna framkvæmdargleðinni á heimilinu farveg og ýta hlutunum áfram. 

Dæmi um spurningar sem við getum veitt ráðleggingar um eru

  • Er hægt að opna inn í stofuna og taka niður vegg? 
  • Væri mikið mál að breyta stofuglugganum í stóra rennihurð út í garðinn? 
  • Er hægt að færa eldhúsið niður á næstu hæð? 
  • Þarf að endurnýja þennan glugga alveg eða nægir að skipta um gler? 
  • Er mikið mál að bæta hljóðvistina á stigaganginum? 
  • Hvað þarf til að geta hlaðið rafbíl með öruggum hætti? 
Við getum vissulega ekki gert hvað sem er yfir símann og stundum er nauðsynlegt að fá fagmann á staðinn til að taka út aðstæður, banka í veggi og pota í timbur en oft á tíðum er nóg að tala stuttlega við sérfræðing. 

Hægt að panta ráðgjöfina á vefnum

Ef þú vilt fá aðstoð okkar með þessum hætti þá getur þú lesið meira um málið á vefnum okkar. Þar getur þú pantað samtal, fyllt inn í eyðublað nauðsynlegar upplýsingar og við munum hafa samband tilbaka. Því meiri upplýsingar sem þú gefur upp því betra og gott getur verið að senda skýrar myndir, teikningar og lýsingu á viðfangsefninu.

Endurgreiðsla virðisaukaskatts af ráðgjöf

Um þessar mundir er hægt að fá góð tilboð í verklegar framkvæmdir og þá hefur ríkið ákveðið að endurgreiða að fullu virðisaukaskatt af allri vinnu tengda íbúðarhúsnæði, líka hönnun og ráðgjöf, með átakinu Allir vinna

Við erum viss um að þetta nýja form ráðgjafar getur komið að góðum notum. Núna er rétti tíminn til að sinna viðhaldi og jafnvel breytingum á okkar stærstu eignum og í leiðinni komið hjólum efnahagslífsins aftur af stað.

Ekki hika við að hafa samband, við verðum þér innan handar.

Panta samtal