Samfélagið

Öruggara fjarskiptakerfi á landinu öllu

des. 20, 2019 Samfélagið

Í ljósi víðtæks fjarskiptaleysis í kjölfar mikils óveðurs og ísingar sem gekk yfir landið í byrjun desember 2019 hafa margar og stórar spurningar vaknað síðustu daga. Helsti orsakavaldur rofs á fjarskiptum er straumleysið sem hefur orðið vegna skemmda á háspennudreifikerfum. Einnig hefur eitthvað verið um ísingu á örbylgjusamböndum en þess konar samböndum fer þó fækkandi með aukinni ljósleiðaravæðingu.

Öryggi vegfarenda í jarðgöngum

Flest okkar aka í dag í gegnum jarðgöng af öryggi, enda erum við oftar en ekki að sneiða hjá erfiðum fjallvegum og/eða vetrarstormum. Öryggið skapast hins vegar ekki að sjálfu sér en með samstilltu átaki þeirra sem að því koma hefur náðst gríðarmikill árangur í að bæta það á undanförnum árum.

Jarðgöng, rétt eins og önnur svæði þar sem tryggja þarf öryggi fólks og flóttaleiðir, eru háð rafmagni. Segja má að rafmagn sé undirstaða þess að öryggiskerfi ganganna virki, þ.m.t. lýsing og fjarskipti. Því eru öll nýrri jarðgöng tengd með tveimur aflfæðingum, inn í hvorn enda ganganna. Rofni önnur leiðin eru miklar líkur á að hin leiðin virki áfram með óbreyttri virkni ganganna. Rofni hins vegar báðar leiðir þannig að algert straumleysi verði, þá tekur við varaafl á rafgeymum í 1 klst. fyrir neyðarlýsingu og önnur kerfi ganganna. Fjarskiptakerfi og stjórnkerfi hafa fjórfalt lengri endingartíma á varaafli sem tryggir neyðaraðilum nægan tíma til að sækja fólk inn í göngin, gerist þess þörf.

Öll nýrri jarðgöng eru tengd með tveimur aflfæðingum, inn í hvorn enda ganganna, til að tryggja öryggiskerfi þeirra, t.d. lýsingu og fjarskipti. 

Fjarskiptakerfi jarðganganna byggjast á fjórum mismunandi tegundum kerfa; tetra, fjarsímakerfi, FM útvarpskerfi og neyðarsímkerfi og eru þau ætluð vegfarendum í göngunum sem og neyðar- og þjónustuaðilum ganganna. 

Tetra

Fyrst ber þar að nefna TETRA fjarskipti fyrir neyðar- og þjónustuaðila. Tekið er á móti TETRA merki við báða gangamunna frá tveimur aðskildum TETRA sendum. Þetta er gert til að tryggja að TETRA samband í göngunum falli ekki út, þótt ekki náist samband frá öðrum hvorum enda ganganna, hvort heldur sem um er að ræða bilun í búnaði ganganna eða bilun í viðkomandi TETRA sendi. 

Farsímakerfi (GSM/3G/4G)

Farsímakerfið er í flestum göngum í dag. Kerfið er dags daglega aðallega ætlað sem þjónusta við þá sem um göngin fara, en í neyðartilvikum hefur það sýnt sig að yfir 90% af upphringingum til 1-1-2 koma frá farsímum í göngunum. Jarðgöng hafa sinn eigin farsímasendi sem gerir Neyðarlínunni kleift að sjá hvaðan (úr hvaða jarðgöngum) hringt er. Farsímakerfin eru á sama hátt og TETRA kerfið byggt upp á endurvörpum þar sem bilun í einum þeirra hefur ekki áhrif á virkni kerfisins.

FM útvarpskerfi

Þriðja kerfið sem komið er upp í nokkrum jarðgöngum í dag er
FM-útvarpskerfi. Kerfið, eins og GSM kerfið, nýtist til þæginda fyrir vegfarendur dags daglega, en er þannig hannað að hægt er að rjúfa allar rásir og koma skilaboðum til þeirra sem á það hlusta inn í göngunum. Þetta hefur sýnt sig að vera besta leiðin til að koma skilaboðum til þeirra sem sitja í bílum í göngunum og þarf einhverra hluta vegna að koma skilaboðum til, t.d. um að snúa við og aka út aftur. Kerfið er eins og áður nefnd kerfi keyrt á varaafli og með tvöfaldri virkni á endurvörpum sem kemur í veg fyrir að kerfið verði óvirkt, þótt einn þeirra bili.

Fjarskiptakerfi í göngumFjarskiptamastur við Stykkishólm.

Neyðarsímkerfi

Fjórða kerfi ganganna er síðan neyðarsímakerfi, sem tengt er í gegnum netkerfi ganganna. Neyðarsímarnir hringja sjálfvirkt í 1-1-2 um leið og tólinu er lyft. Netkerfið er í öllum tilfellum tengt við grunnnet fjarskipta (fjarskiptafélögin) með tveimur óháðum leiðum og í flestum tilfellum með ljósleiðurum frá báðum enda ganganna. Netkerfið og neyðarsímarnir eru, eins og aðrir hlutar fjarskiptakerfisins, tengt á varaafli.

Löng jarðgöng kalla á aukið öryggi

Með lengri jarðgöngum lengist sá tími sem það tekur að komast út í neyðartilvikum. Því er stöðug unnið að því að auka öryggi ganganna t.d. með að skoða og meta hvort þörf sé á eftirlitsmyndavélakerfum, auknu varaafli með díselrafstöð, GPS staðsetningarkerfi sem gerir neyðaraðilum kleift að sjá staðsetningu á fólki í göngunum sem ber farsíma með ca. 2m nákvæmni, ef þörf er á að sækja það í göngin og svo mætti lengi telja.

Öryggisráðstafanir í jarðgöngum taka mið af reglugerð Evrópusambandsins. 

Við sem samfélag höfum byggt upp afar öflugt öryggis og fjarskiptakerfi á hluta vegakerfisins og þá aðallega í jarðgöngum. Jarðgöngin eru bundin skýrri reglugerð frá Evrópusambandinu sem marka heildaryfirsýn, samræmingu og öryggisráðstafanir. Hins vegar virðumst við vera vanbúin og án stefnumiða þegar kemur að því að byggja upp öflugt öryggis- og fjarskiptakerfi á öðrum stöðum landsins.

Við eigum að geta litið á ákveðin landsvæði á sama hátt og gert er í tilfelli jarðganga, t.d. með því að tryggja tvöfaldar straumfæðingar á alla þéttbýlisstaði auk þess að byggja varaafl á alla nauðsynlega innviði samfélagsins eins og fjarskipti. Varaaflið þarf að knýja öll fjarskipti, net- og IP-símakerfi, farsímakerfi, TETRA neyðarfjarskipti og FM-útvarpskerfin.

Úreltar langbylgjusendingar

FM-útvarpskerfið hefur verið í uppbyggingu í meira en 50 ár og er án efa öflugasta leiðin til að koma skilaboðum til fólks. Flestir bílar, heimili fólks og atvinnufyrirtæki hafa yfir að ráða búnaði til að taka á móti FM- útvarps­sendingum, jafnvel í straumleysi. Fæstir búa hins vegar yfir búnaði til móttöku á langbylgjusendingum og orðið erfitt að kaupa slíkan búnað. Klára þarf uppbyggingu FM-dreifikerfisins þannig að allir helstu þjóðvegir og allar sveitir landsins geti náð útvarpssendingum RÚV. Kerfið þarf að byggja upp með varaafli, tryggum fjarskiptasamböndum og jafnvel með innátali, þannig að taka megi svæðisbundið yfir senda RÚV og útvarpa tilkynningum til íbúa í neyðartilfellum.

Öflug og örugg farsímakerfi

Farsímakerfin eru tvímælalaust öflugustu kerfin til að koma boðum frá sér í neyðartilvikum, hvort heldur sem er til að láta vita að allt sé í lagi og að ekki sé þörf á að björgunarsveitarmenn leggi líf sitt og limi að veði til að brjótast til fólks í óveðri, til þess eins að fá þau svör að allt sé í lagi og engin þörf á aðstoð, eða til þess að ná sambandi við neyðaraðila þegar þess gerist virkilega þörf. Næstum hvert einasta mannsbarn er með farsíma í dag og við eigum að byggja þessi kerfi þannig upp að þau virki sem víðast og þegar neyðarástand skapast. Í þessu sambandi má benda á að ríkið hefur stutt uppbyggingu farsímakerfa á þjóðvegum landsins í gegnum útboð hjá Fjarskiptasjóði á undanförnum árum, með það markmiði að auka öryggi fólks sem um vegina fara. Það virðist því ekki vera samræmi í því þegar talað er um það hvort farsímakerfin séu öryggiskerfi eða ekki, en ljóst má vera að það eru engin önnur kerfi í dag sem eru betri til þeirra nota og með réttri uppbyggingu þeirra og varaafli á að vera hægt að tryggja uppitíma þeirra á neyðarstundum.

Stefna ætti að tvöföldu TETRA kerfi

Á sama hátt þarf að tryggja uppitíma TETRA kerfisins. Aukið varaafl með díselvélum sem tryggja uppitíma í nokkra daga svo og fjarskiptasambönd milli sendanna með sömu kröfum. Með aukinni notkun jarðstrengja er ekki lengur þörf á að díselvélar með tilheyrandi olíutönkum séu staðsettar uppi á fjöllum þar sem erfitt er að þjónusta búnaðinn og koma olíubirgðum á staðinn. Þess í stað má byggja kerfið þannig upp að díselvélin sé við rætur fjallsins og tengist við jarðstrenginn sem liggur að fjarskiptabúnaðinum á toppi þessi. Tvöfalt TETRA kerfi er það sem stefna þarf að og haga allri uppbyggingu þess þannig að einn og einn sendir geti fallið út úr kerfinu án þess að það hafi veruleg áhrif á rekstur þess á viðkomandi svæði.

En allt er þetta þó háð fjármagni og vilja stjórnvalda hverju sinni. Með þessum skrifum vil ég hvetja alla þá sem um þessi mál fjalla að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar og samræmingar, ásamt því að leggja línurnar fyrir öruggari fjarskipti fyrir alla landsmenn, til framtíðar litið.

Viltu vita meira?

Endilega hafðu samband ef þú vilt ræða málin við okkur.

Hafa samband