Siglum í átt að grænni framtíð
Í tilefni af 50 ára afmæli EFLU bjóðum við hagaðilum á málþingið Siglum í átt að grænni framtíð þriðjudaginn 28. nóvember næstkomandi klukkan 10:00 - 12:00. Málþingið fer fram í höfuðstöðvum okkar á Lynghálsi 4, en verður jafnframt í beinu streymi á starfsstöðvum okkar á Akureyri, Ísafirði og Reyðarfirði
EFLA tekur virkan þátt í samfélagslega mikilvægum verkefnum og eru orkuskipti í höfnum eitt af þeim verkefnum.
Framundan eru miklar breytingar í átt að hreinorkuvæðingu hafna og unnið er að því að setja fram spennandi
lausnir til að auðvelda núverandi starfsemi að takast á við slíkar breytingar.Við leggjum áherslu á að styðja þessa þróun með faglegri ráðgjöf,nýsköpun og stafrænum lausnum þar sem sjálfbærni er að sjálfsögðu grunnstoðin.
Hafnir skipta höfuðmáli þegar kemur að alþjóðlegum flutningakerfum og hafa mikil áhrif á kolefnislosun.
Rafvæðing hafna getur þannig spilað stóran þátt í að draga úr kolefnislosun, bætir hafnarumhverfi til muna og getur spilað stóran þátt í að Ísland nái kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.
Með þessu málþingi viljum við kynna okkar sýn og eiga gott samtal um þetta stóra framtíðarverkefni.
Dagskrá:
10:00
Skúli B. Jónsson sviðsstjóri Iðnaðarsviðs EFLU
býður gesti velkomna
10:10
Majid Eskafi, hafnarverkfræðingur á samfélagssviði EFLU
Mikilvægi hafna við að ná loftslagsmarkmiðum
Erindi Majid fjallar um markmið og stefnu alþjóðlegra, evrópskra og íslenskra stjórnvalda hvað varðar kolefnislosun í sjávarútvegi og hvert hlutverk hafna sé við að ná þeim markmiðum. Með erindinu verður bent á mikilvægi orkuskipta þegar kemur að sjálfbærni hafnarsvæða auk þess sem varpað verður ljósi á hvernig hægt er að standa að sjálfbæru hafnarskipulagi til að uppfylla markmið hagsmunaaðila.
Dr. Majid Eskafi er sérfræðingur með bakgrunn í hafnarskipulagi, verkfræði og stjórnun með áherslu á sjálfbært hafnarskipulag. Hann hefur unnið í fjölbreyttum hafnarverkefnum alþjóðlega og birt greinar um hafnarverkfræði.
10:35
Jón Heiðar Ríkharðsson, vélarverkfræðingur á iðnaðarsviði EFLU
Orkuskipti í höfnum - hlutverk , áskoranir og lausnir
Jón Heiðar fjallar um hlutverk hafna og hafnarsvæða sem orkuinnviði og hvernig það hlutverk kemur til með að breytast með orkuskiptum. Þróuninni fylgja áskoranir innan sem utan hafnarsvæðanna sem mikilvægt er að takast á við. Í erindinu mun Jón Heiðar einnig skoða eðli þessara áskoranna og taka dæmi um lausnir og verkefni sem styðja við orkuskipti í höfnum til framtíðar.
Jón Heiðar Ríkharðsson er sérfræðingur og verkefnastjóri á Iðnaðarsviði EFLU. Hann hefur víðtæka reynslu af fiskiðnaði, orkuskiptum og atvinnuþróun. Jón Heiðar hefur lagt áherslu á viðskiptaþróun og greiningar í orkuskiptum, fiskeldi- og vinnslu, og matvælaframleiðslu. Að auki hefur hann tekið þátt í verkefnum tengdum bættri nýtingu auðlinda, sjálfbærni og hringrásarhagkerfi.
11:00
Atli Már Ágústsson, rafmagnstæknifræðingur á iðnaðarsviði EFLU
Framtíðaráskoranir í rafvæðingu íslenskra hafna
Erindi Atla Más fjallar um þær áskoranir sem Íslenskar hafnir hafa verið að glíma við á síðustu árum og munu sjá fyrir á næstu árum. Allar þessar áskoranir tengjast orkuskiptum í bátum sem og öðrum hafnarfarartækjum til að draga úr kolefnislosun.
11:25
Umræður og opið fyrir spurningar