Fréttir


Fréttir

Afdráttarlaus afstaða á málstofu um vistvæna steypu

Steinsteypufélag, Umhverfisvæn steypa, Málstofa

25.9.2019

Í gær buðu Steinsteypufélag Íslands og EFLA til málstofu um vistvæna steypu. Málstofan var afar vel sótt og ljóst að mikill áhugi var á málefninu enda hefur eftirspurn eftir umhverfisvænni steypu aukist mikið.

  • Steinsteypufélagið og EFLA héldu málstofu
    Fyrirlesarar á málstofunni. Vetle Houg, Jesper Sand Damtoft, Dr. Ólafur Wallevik og Alexandra Kjeld.

Málstofan var haldin í húsakynnum EFLU að Lynghálsi 4 í Reykjavík og stóðu Steinsteypufélag Íslands ásamt EFLU að málstofunni. Boðið var upp á fjögur erindi og opnar umræður. Karsten Iversen, varaformaður Steinsteypufélagsins, bauð gesti velkomna og sagði frá dagskrá fundarins. Fyrirlesarar málstofunnar voru sammála um að það væri afar þýðingarmikið að framleiðendur greini frá umhverfisáhrifum steypu. Vistferilsgreiningar og umhverfisyfirlýsingar væru mikilvægur liður í þeirri vegferð.

Þróun mála hérlendis

Dr. Ólafur Wallevik hjá Nýsköpunarmiðstöð Ísland tók fyrst til máls og ræddi um þróun mála á Íslandi með tilliti til vistvænna byggingarefna. Honum fannst brýnt að steypuiðnaðurinn á Íslandi leggði sitt af mörkum við að greina eigin umhverfisáhrif og leggja til upplýsingar í formi vistferilsgreininga eða umhverfisyfirlýsinga (Environmental Product Declarations, EPD) þannig að bæði framleiðendur og byggingaraðilar færu ekki á mis við tækifæri til að sýna fram á umhverfisvæna og endingargóða steypu í umhverfisvottuðum byggingum.

Eftirspurn eftir vistænni vöru aukist til muna

Jesper Sand Damtoft hjá sementsframleiðandanum Aalborg Portland í Danmörku, sagði frá fjölda aðferða sem hafa verið í þróun til að gera sementsframleiðslu umhverfisvænni, t.d. með betri orkunýtingu og nýjum hráefnum. Hann sagði m.a. frá þróunarverkefninu Futurecem, sem vonir standa til að muni draga úr kolefnisspori framleiðslunnar um allt að 30%. Jesper sagði að hingað til hefði verið skortur á fjárhagslegum hvötum til að greiða fyrir götur þróunarstarfsemi fyrir vistvæna sementsframleiðslu, en að umræðan hefði tekið stakkaskiptum á undanförnu ári og að nú væri eftirspurnin orðin gríðarleg.

Steypuframleiðendur noti vistferilsgreiningar

Eftir stutt kaffihlé fékk orðið Vetle Haug , framkvæmdastjóri hjá norsku samtökunum Byggutengrenser, og sagði hann frá því hvernig sterk hagsmunaöfl í Noregi og skortur á hlutlausum upplýsingum gerðu það að verkum að stjórnvöld væru farin að taka ákvarðanir um efnisval í byggingum og ráðstöfunum fjármuna, án þess að hafa viðeigandi gögn til að styðja mál sitt. Hann hvatti til þess að steypuframleiðendur gæfu út EPD og að gerðar yrðu vistferilsgreiningar til að aðstoða stjórnvöld og fjárfesta við að taka bestu ákvarðanirnar. Einnig sagði hann frá núverandi þróunarverkefni um að fanga kolefni frá sementsverksmiðju Norcem í Brevik og dæla því neðansjávar.

Umhverfisvottanir bygginga

Að lokum tók Alexandra Kjeld, umhverfisverkfræðingur hjá EFLU, til máls og setti umhverfisvottanir bygginga í samhengi við vistferilshugsun (e. life cycle thinking) í byggingariðnaðinum. Hún sýndi nokkur dæmi um hvernig vistferilsgreiningar hafa verið nýttar á bæði undirbúnings- og framkvæmdarstigi verkefna til að þróa leiðir til að draga úr umhverfisáhrifum. Þannig hafa verið útfærðar leiðir til að draga verulega úr hlut steypu í kolefnisspori byggingarinnar. Hlutur steypu í kolefnisspori , t.d. með því að endurskoða hönnun, fjölga steypustyrktarflokkum, og með því að minnka hlutfall sements.

Steinsteypufélagið og EFLA héldu málstofuFjöldi gesta lagði leið sína á málstofuna.

Steinsteypufélagið og EFLA héldu málstofuAlexandra Kjeld hélt erindi um vistferilsgreiningar og umhverfisvottanir.

Steinsteypufélagið og EFLA héldu málstofuMikill áhugi var á málefninu.