Fréttir


Fréttir

Áframhaldandi verkefni SENSE og EFLU

17.2.2015

Nýlokið er þriggja ára Evrópuverkefni sem EFLA var þátttakandi í. Verkefnið, Harmonised Environmental Sustainability in the European food and drink chain eða SENSE, var styrkt af 7. rammaáætlun Evrópusambandsins.
  • Harmonised Environmental Sustainability in the European food and drink chain
    Mynd sýnir þátttakendur vinnufundar SENSE verkefnisins sem haldinn var á Íslandi í september 2014.

Tuttugu og þrír aðilar stóðu að verkefninu og komu þátttakendur vítt og breytt frá Evrópu m.a. Spáni, Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Rúmeníu, Þýskalandi og Sviss. Frá Íslandi voru það Háskóli Íslands og EFLA verkfræðistofa sem tóku þátt.

Markmið verkefnisins var að hanna kerfi og hugbúnað sem á einfaldan hátt metur umhverfisáhrif matvæla og miðlar þeim upplýsingum til neytenda og annarra hagsmunaaðila. Hlutverk EFLU í verkefninu var m.a. að gera vistferilsgreiningu á eldislaxi frá vöggu til grafar, þar sem helstu umhverfisáhrifin má rekja til öflunar hráefnis og framleiðslu fóðurs. Einnig hefur val á flutningsmáta á erlenda markaði töluverð áhrif á heildar umhverfisáhrif vörunnar. Í verkefninu voru einnig gerðar vistferilsgreiningar á mjólkurvörum, nautakjöti og ávaxtasafa. EFLA tók einnig þátt í að þróa SENSE-hugbúnaðinn og innleiða í fyrirtæki.

SENSE hugbúnaðurinn er veflægur, einfaldur hugbúnaður fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki til að meta umhverfisáhrif framleiðslunnar með aðferðafræði vistferilsgreiningar. Heimsíða verkefnisins er www.senseproject.eu, þar sem hægt er að sækja um fjórtán daga reynsluáskrift að hugbúnaðinum.