Fréttir


Fréttir

Alþjóðleg ráðstefna um vatnsaflsvirkjanir

Hydro, Vatnsafls, Sýning, Gdansk

24.10.2018

EFLA, ásamt samstarfsaðilum frá Íslandi á sviði vatnsaflsvirkjana, tók þátt í alþjóðlegu sýningunni, Hydropower & Dams, sem fór fram í Gdansk, Póllandi í síðustu viku. Markmið með þátttökunni var að kynna íslenska sérfræðiþekkingu á sviði hönnunar og ráðgjafar á vatnsaflsvirkjunum.

  • Hydro exhibition team Iceland
    Kynningarbás Íslands á sýningarsvæðinu í Gdansk.

Um var að ræða sameiginlega þátttöku verkfræðistofanna EFLU, Mannvits, Vatnaskila og Verkís ásamt Landsvirkjun Power undir formerkinuTeam Iceland. Íslandsstofa sá um verkefnastjórn og utanumhald vegna þátttöku íslensku aðilanna á sýningunni en teymið var með sýningarbás á staðnum ásamt því sem fulltrúi frá Landsvirkjun flutti erindi á ráðstefnunni.

Á kynningarbásnum var hægt að skoða myndbönd og ljósmyndir frá Íslandi ásamt því að örerindi var flutt um áhrif loftslagsbreytinga á rennsli í jökulám. Mikill fjöldi gesta heimsótti íslenska básinn og fræddist um þjónustu og helstu verkefni á sviði vatnsaflsvirkjana.

Alþjóðlegt samstarf

HYDRO ráðstefnan er haldin árlega í Evrópu og er henni ætlað að miðla þekkingu, fræðslu og efla tengslanet í greininni. Um 1500 þátttakendur frá 75-80 löndum víðsvegar úr heiminum komu á ráðstefnuna og hlustuðu á fjölmarga áhugaverða fyrirlestra ásamt því að heimsækja sýningarsvæðið. Dagskrá sýningarinnar má sjá á vefnum.

Fjölbreytt verkefni á sviði orkumála

EFLA býður upp á heildarþjónustu við athuganir og hönnun á vatnsaflsvirkjunum, allt frá frumathugunum til framkvæmdaeftirlits og gangsetningar. Að auki er unnið að afar fjölbreyttum verkefnum á sviði orkumála t.d. vindorku og jarðvarma.