Fréttir


Fréttir

Árétting EFLU vegna umræðu í hverfishópi á Facebook

18.7.2019

EFLA vill koma á framfæri eftirfarandi áréttingu vegna umræðu sem fór af stað í spjallþræði hverfishóps á Facebook um myndatökur starfsmanns á leikvelli í hverfinu. 

  • Leiksvæði
    Mynd frá leiksvæði við skóla.

Vegna umræðu sem fór af stað í hverfishópi á Facebook um myndatökur starfsmanns EFLU á leikvelli í Reykjavík vill EFLA taka eftirfarandi fram:

Starfsmaður EFLU var í morgun við öryggisúttekt á búnaði og lóð leiksvæðis í Drekavogi. Slíkar úttektir eru gerðar á öllum stofnanalóðum í Reykjavík, þ.e. grunnskólalóðum, leikskólalóðum og opnum leiksvæðum. Við úttektir er stuðst við smáforrit í spjaldtölvu þar sem bilanir eru skráðar og myndir eru teknar af frávikum, til dæmis af skemmdum á búnaði og leiktækjum. Aldrei eru teknar myndir af notendum svæðanna, hvorki börnum né fullorðnum. Verklagsreglur EFLU kveða á um að starfsmenn í úttektum skulu ávallt klæðast merktum fatnaði. Viðkomandi starfsmaður EFLU, sem var í vettvangsferð í morgun í Drekavogi, klæddist flíspeysu merktri fyrirtækinu.

EFLA harmar mjög að umræðan skuli hafi farið í þennan farveg. Þó að vissulega sé alltaf gott að hafa varann á sér gagnvart grunsamlegri hegðun fullorðinna á leikvöllum þá biður EFLA fólk einnig um að gæta þess að bera ekki í fljótfærni rangar sakir á saklausa einstaklinga í umræðum á Facebook. Oft getur einfaldlega verið um að ræða fólk að sinna starfi sínu.

Til allrar hamingju var þarna um misskilning að ræða sem hefur nú verið leiðréttur.