Fréttir

Asfaltstöð á Reyðarfirði

26.5.2015

EFLA verkfræðistofa vann nýlega að endurnýjun á stjórnkerfi asfaltstöðvar Vegagerðarinnar á Reyðarfirði.
Eldra kerfi var að hluta handvirkt en nýja kerfið hefur verið sjálfvirknivætt enn frekar og er hannað með það að markmiði að einfalda alla skráningu og utanumhald á afgreiðslu.


EFLA þróaði nýja hugbúnaðarlausn með fullkominni stýringu á blöndun og dælingu á asfaltblöndu út á tankbíla. Stærsta viðbótin við gamla kerfið er að nýja kerfið tengist við ORRA, sem er fjárhagskerfi ríkisins sem heldur meðal annars utan um öll innkaup og pantanir. Bílstjórar þurfa nú einungis að koma með pöntunarnúmer í stað afgreiðslubeiðnar áður. Pöntunum er flett upp í skjákerfinu og birtist þá viðkomandi pöntun með öllum upplýsingum og hægt er að byrja að dæla. Í lok afgreiðslu sér kerfið um að uppfæra stöðu pantana í ORRA og senda rafrænan afgreiðsluseðil á viðskiptavini.

Almenn ánægja er með nýja kerfið hjá Vegagerðinni, bæði hjá þeim sem sjá um að dæla og þeim sem sjá um pantanir og bókhaldsmál, og verður kerfið sett upp á tveimur dælustöðvum til viðbótar.