Fréttir


Fréttir

Bás EFLU á sýningunni Reykjanesi 2009 vekur athygli

3.9.2009

Bás EFLU á sýningu tengdri Ljósanótt 2009, er hannaður með hliðsjón af tveimur aðal munum og á að vera "lýsandi" dæmi um það sem EFLA vinnur að jafnt í Reykjanesbæ sem annars staðar.

  • Reykjanes 2009

Í einn stað er um að ræða glæsilegt fiskabúr, ættað frá miklum áhugamanni um skrautfiska í Grindavík, Guðmundi J. Sigurgeirssyni.

Það er lýst með nútímatækni og er í raun ævintýraheimur líkt og verkfræði og tækni getur verið; fræðin sem EFLA stendur fyrir en básinn er hannaður jafnt fyrir börn sem fullorðna, leikmenn sem atvinnufólk.

Í annan stað eru sérstæðir lampar látnir ramma fiskabúrið inn.

Þeir eru fengnir að láni frá Kristínu Birnu Bjarnadóttur, vöruhönnuði og líkjast furðuverum í hafinu.

Lamparnir eiga að styrkja ímynd Ljósanætur og minna bæði á ljós og vatn og svo auðvitað á þá sérstöðu sem EFLA í Reykjanesbæ hefur haft með ráðgjöf í ljósatækni og raf- og stjórnkerfum.

Ákveðið var að hafa básinn bláan hólf í gólf til að undirstrika vatnið í búrinu.

Á veggnum við fiskabúrið eru 600 orð um það sem EFLA kann og gerir.

Orðin, séð úr fjarlægð, líkist yfirborði sjávar og eiga að minna á kraftinn og þungan sem fylgir EFLU í starfi, og einnig á víðtæka faglega þekkingu og fjölbreytni fyrirtækisins.

Básinn er óður til raflýsingar, Ljósanætur, fjölskyldunnar og þekkingar sem undirstöðu allra framkvæmda.