Fréttir


Fréttir

Blaðamannafundur um Ísgöngin í Langjökli

3.6.2014

Í dag var haldinn blaðamannafundur á EFLU til að kynna stöðu verkefnisins um ísgöng í Langjökli. Framkvæmdir hófust snemma í vor og nú hafa verið grafin um 40 metra löng göng inn í jökulinn. Fenginn var til liðs við verkefnið leikmynda- og sýningahönnuðurinn Árni Páll Jóhannsson til að hanna útlit og voru teikningar af Ísgöngunum kynntar á blaðamannafundinum. Einnig var sýnt tölvugert myndband sem verður aðgengilegt síðar meir á vef verkefnisins.
  • Blaðamannafundur um Ísgöngin í Langjökli

Göngin verða alls um 800 metra löng og verða mest um 30 metra undir yfirborði jökulsins. Gestir munu geta virt fyrir sér sýningar, íslistaverk og margbreytileika jökulíssins. Þeir munu sjá hvernig íssprungur lokast og hvernig sólarljósið þrengir sér niður á tuga metra dýpi í jöklinum.
Ferðamenn verða fluttir frá jökulröndinni að göngunum með átta hjóla jöklatrukkum og þeir þurfa að búast mannbroddum áður en þeir leggja af stað.
Ísgöngin í Langjökli verða einstakur ferðamannastaður og frábær valkostur fyrir ferðamenn sem vilja fara í spennandi dagsferðir frá Reykjavík.
Í göngunum verða alls kyns afkimar og afhellar sem verða notaðir undir sýningar, fræðslu, veitingasölu og fleira. Í einum afhellinum er gert ráð fyrir lítilli kapellu en líkur þykja á því að margir vilji nota ferð í göngin til að ganga í það heilaga. Fullgerð verða þau um 7.000 rúmmetrar og verða göngin þá á meðal stærstu manngerðu íshella í heimi.

Stefnt er að opnun Ísganganna í maí 2015. Búist er við að á bilinu 20-30.000 gestir komi þangað árlega til að byrja með. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður 200-300 milljónir.

Kynning fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu var haldin á Icelandair Hotel Natura í dag og síðsumars verður byrjað að kynna Ísgöngin fyrir ferðaþjónustufyrirtækjum erlendis. Þar verða göngin kynnt undir nafninu IceCave.

Ísbrotsvélin

Verkefnið í þróun

Á myndunum hér fyrir neðan má sjá Sigurð Skarphéðinsson, framkvæmdastjóra Ísganga og Ara Trausta Guðmundsson ráðgjafa við verkefnið. Það var svo Reynir Sævarsson verkfræðingur á EFLU sem kynnti verkefnið með þeim.

isgong 2

isgong 1