Fréttir


Fréttir

Borvatnsveita Þeystareykjavirkjunar

7.4.2014

EFLA verkfræðistofa hefur tekið að sér hönnun og ráðgjöf við uppbyggingu borvatnsveitu fyrir fyrirhugaða 200 MWe jarðvarmavirkjun Landsvirkjunar við Þeystareyki. Verkefnið snýr að hönnun vatnsveitu fyrir jarðbora á uppbyggingartíma virkjunarinnar ásamt því að útvega vinnubúðum virkjunarinnar köldu neyslu- og brunavatni.

Á borvatnsveitureitnum eru tvær 8" borholur með djúpdælum sem afkasta allt að 90 L/s af vatni fyrir borvatnsveitu. Í dælukjallara veitunnar eru tvær hliðtengdar skerpidælur sem skerpa á þrýsting veitunnar. Neysluvatn fyrir vinnubúðir virkjunarinnar verður tengt við núverandi vatnsveitu Þeystareykjaskála sem sótt er í lind undir Ketilfjalli. Lítilli djúpdælu verður komið fyrir í 5" borholu á borvatnsveitureitnum sem dælir vatni inn á neysluvatnsveituna þegar lindin hefur ekki undan. Einnig verður millitenging milli borvatnsveitu og neysluvatnsveitu til að auka enn frekar neysluvatn til vinnubúða en millitengingin verður einnig nýtt sem slökkvivatn inn á vinnubúðareit.

Hlutverk EFLU í verkefninu er hönnun á byggingu húsnæðis undir borvatnsveitu, hönnun á vatnsveitu ásamt uppsetningu lagna og búnaðar. Við hönnun á lögnum og búnaði er veitan teiknuð í þrívídd í Autodesk Inventor eins og sjá má á meðfylgjandi mynd en EFLA leggur mikinn metnað í framsetningu gagna og er þrívíð teikning frábært tæki til að auka skilning á flóknum kerfum.