Fréttir


Fréttir

Bygging Búðarhálsvirkjunar

12.11.2012

Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, lagði hornstein að stöðvarhúsi Búðarhálsvirkjunar við hátíðlega athöfn þann 26. október 2012.
  • Búðarhálsvirkjun

Búðarhálsvirkjun er virkjun í Tungnaá sem nýtir fallið í ánni frá frávatni Hrauneyjafossvirkjunar að Sultartangalóni. Uppsett afl verður um 95 MW og orkugeta allt að 585 GWst á ári. Með tilkomu Búðarhálsvirkjunar má segja að búið sé að fullnýta fall frá Þórisvatni niður fyrir Búrfell.

Upphaflega hófust framkvæmdir við Búðarháls árið 2001 en þeim var síðar slegið á frest. Á árinu 2010 hófust framkvæmdir að nýju og er áætlað að virkjunin komist í rekstur í árslok 2013.

Megintilhögun Búðarhálsvirkjunar er þannig að tvær jarðvegsstíflur eru byggðar austan við Búðarháls skammt ofan við ármót Köldukvíslar og Tungnaár. Önnur stíflan þverar farveg Köldukvíslar og hin frávatn Hrauneyjafossstöðvar. Stíflurnar verða báðar um 25 metra háar þar sem þær eru hæstar, önnur þeirra um 1100 metra að lengd og hin um 170 metra löng. Með stíflunum myndast inntakslón Búðarhálsvirkjunar sem nefnt hefur verið, Sporðöldulón, og verður stærð þess um 7 km2 að flatarmáli. Um 4 km löng aðrennslisgöng leiða vatnið frá inntaksvirki við Sporðöldulón til vesturs undir Búðarhálsinn að jöfnunarþró og inntaki við Sultartangalón. Tvær 60 m langar fallpípur úr stáli flytja vatnið frá inntaki að hverflum stöðvarinnar. Stuttur frárennslisskurður er frá stöðvarhúsinu og út í Sultartangalón.

Stöðvarhúsið, sem er steypt og að mestu ofanjarðar, hýsir tvær 47,5 MW vélasamstæður af Kaplan gerð. Vélaspennar virkjunarinnar verða staðsettir framan á stöðvarhúsinu og þaðan liggja háspennustrengir yfir í tengivirkisbyggingu Landsnets sem stendur sunnan við stöðvarhúsið. Frá tengivirkinu verður orkan flutt með háspennulínu austur yfir Búðarháls að Hrauneyjafosslínu og tengjast þar með landskerfinu.

EFLA hannar öll byggingarmannvirki í Búðarhálsvirkjun ásamt tengivirki Landsnets. EFLA hefur einnig yfirumsjón með annarri hönnun í þessum verkefnum sem og samræmingu á allri hönnuninni. Einnig hefur EFLA yfirumsjón með allri áætlanagerð í þessum verkefnum.

Nokkrar nýjar áherslur eru í þessu verkefni sem vert er að nefna:

  • Virðisaukagreining - Árið 2002 var framkvæmd svokölluð virðisaukagreining eða Value Engineering, þar sem m.a. botnrás Sporðöldustífu var tekin burt og hjáveitugöng sett í staðinn. Sparaði þessi breyting stórar fjárhæðir í verkinu.
  • Áhættugreining - Árið 2010 gerði EFLA áhættugreiningu á verkefninu í heild sinni og útbjó svokallað Risk Management System, sem hefur nýst mjög vel við verkefnisstýringu verkefnisins, bæði í hönnun og á framkvæmdatíma.
  • FIDIC útboðsskilmálar - Útboðsskilmálar fyrir flesta samninga, þ.m.t. samninga fyrir byggingarvirkin, eru byggðir á FIDIC.
  • Samræming á milli fagsviða - Til að auðvelda alla samræmingu á milli fagsviða og við framleiðendur véla- og rafbúnaðar og koma í veg fyrir árekstra, þá eru öll mannvirki og búnaður í þeim teiknuð í 3D.
  • Leassons learned - Landsvirkjun heldur reglulega svokallaða ?Lessons learned" fundi, þar sem farið er í gegnum þau atriði sem þykja takast vel og einnig þau atriði sem talið er að megi bæta.