Fréttir


Fréttir

EFLA á Bessastöðum

25.2.2011

Kristrún Gunnarsdóttir, nemandi við umhverfis- og byggingarverkfræðiskor HÍ hlaut sérstaka viðurkenningu forseta Íslands á dögunum fyrir framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna.
  • Viðurkenning Forseta Íslands

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson afhenti viðkenningarnar á hátíðlegri athöfn á Bessastöðum þann 23. febrúar sl. Kristrún vann að þessu verkefni fyrir tilstuðlan EFLU verkfræðistofu. Hafsteinn Helgason var leiðbeinandi Kristrúnar en einnig naut hún aðstoðar Ólafs Árnasonar og Árna Bragasonar á umhverfissviði EFLU verkfræðistofu.

Verkefnið fólst í að meta umhverfislegan kostnað sem hluta af reiknilíkani við undirbúning, framkvæmd og rekstur jarðvarmavirkjana. Með því að taka tillit til allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á umhverfið á frumstigi verkefna, fæst betri sýn á framkvæmd og rekstur virkjanna. Á grundvelli þeirra umhverfisþátta er sett saman reiknilíkan fyrir umhverfislegan kostnað þar sem bæði er um að ræða jákvæða og neikvæða þætti. Erfitt er að meta umhverfislegan kostnað fyrir alþjóðlegan markað þar sem virði lands og umhverfis er mjög ólíkt milli svæða. Niðurstöður benda til þess að mikilvægt sé að taka umhverfislegan kostnað með í líkanagerð þar sem umhverfisþættir skipta miklu máli í sambandi við heildarkostnað jarðvarmavirkjana. Nýsköpunarverðlaunin þetta árið hlutu þrír nemendur Listaháskóla Íslands, þau Auður Ösp Guðmundsdóttir, Embla Vigfúsdóttir og Katharina Lötzsch, ásamt Robert Petersen frá Háskólanum í Gautaborg fyrir verkefnið Pantið áhrifin frá Móður jörð.

Starfsfólk EFLU verkfræðistofu óskar þessum efnilegu nemendum til hamingju með frábæran árangur.