Fréttir


Fréttir

EFLA athugar orkuöflun í Vopnafirði

15.1.2010

 Verið að hefja frumathugun á hagkvæmni þess að búa til hitaveitu fyrir byggðakjarnann í Vopnafirði.

  • Vopnafjörður

Hefur EFLU og Jarðfræðistofunni Stapa verið falið að vinna verkið.

Rafmagn er nú aðallega notað til upphitunar á staðnum.

Meðal annars á að kanna hvort og hvernig er unnt að nota orku sem "hverfur út í buskann" frá fiskimjölsverksmiðju HP Granda á staðnum og hvort finna megi meira af nýtanlegu heitu vatni í Selárdal en þar er töluvert af 50 stiga heitu jarðvatni.

Finnist þar meira af vatni eftir frekari rannsóknir má hækka hitastigið með varmadælum.

Einnig verður skoðað hvort sorpbrennsla geti gefið af sér hagkvæma orku.

Þorsteinn Steinsson sveitarstjóri telur að hugsanlega mætti stofna félag um slíka samsetta hitaveitu með aðkomu Vopnafjarðarhrepps, RARIK og fleiri aðila.

Þá nefnir Þorsteinn í viðtali við Viðskiptablaðið að trúlega mætti sækja styrki til þessara framkvæmda til Evrópusambandsins því framkvæmdirnar væru vistvænar.

Verkefni EFLU og Stapa tekur til fjögurra aðtriða: Raunstöðu orkumála og möguleika á styrkjum, valkosta orkuöflunar og hagkvæms lagnakerfis, til gerðar tæknikerfis og uppbyggingu hitaveitukerfisins og loks til kostnaðar og arðsemi.