Fréttir


Fréttir

EFLA hlýtur Loftslagsviðurkenningu 2019

29.11.2019

Á árlegum loftslagsfundi Reykjavíkurborgar og Festu var tilkynnt að EFLA væri handhafi Loftslagsviðurkenningar 2019. Verðlaununum er ætlað að vekja jákvæða athygli á því sem vel er gert í loftslagsmálum og vera hvatning til annarra.

  • Loftslagsvidurkenning 2019
    Starfsfólk EFLU tók á móti Loftslagsviðurkenningunni 2019.

Í umsögn dómnefndar kom fram að við val á EFLU sem handhafa verðlaunanna hafi verið horft til mikilvægis nýsköpunar, árangur við að draga úr eigin losun gróðurhúsalofttegunda og ekki síst áhrifamáttarins við að bjóða fram lausnir sem gera öðrum líka fært að bæta umhverfisfótspor sitt með margvíslegum hætti. EFLA hefur verið leiðandi á sviði umhverfisvænna lausna og lagt sitt af mörkum við að leggja áherslu á vistvæna nálgun í verkefnum sínum. Fyrirtækið vinnur markvisst að því að minnka kolefnisspor í eigin starfsemi og hefur náð að draga úr losun um 17% miðað við árið 2015 ásamt því að starfsemin hefur verið kolefnisjöfnuð síðustu tvö ár. Þá hefur nýsköpunarframtakið Matarspor, kolefnisreiknir máltíða, vakið mikla eftirtekt en því er ætlað að fræða og auka umhverfisvitund neytenda og framleiðanda.

EFLA hlýtur Loftslagsviðurkenningu 2019

Nánar á vef Reykjavíkurborgar.

Fræðast um það nýjasta í loftslagsmálum

Loftslagsfundur Festu og Reykjavíkurborgar fór fram föstudaginn 29. nóvember í Hörpu og var yfirskrift fundarins „Hvað erum við tilbúin til að gera?“.  Framsögumenn héldu erindi og borgarstjóri og umhverfisráðherra ávörpuðu fundinn og afhenti Dagur B. Eggertsson Loftslagsviðurkenninguna 2019. Eftir dagskrána komu ráðstefnugestir saman á markaðs- og samtalstorgi, spjölluðu saman og tóku púlsinn á málefnum loftslagsmála. EFLA var með kynningarbás á svæðinu og kynnti þjónustuvefinn Matarspor sem vakti athygli viðstaddra.

Hægt er að sjá upptöku af fundinum á vefnum.

Lausnir sem hafa jákvæð áhrif á samfélög

Starfsfólk EFLU er afar þakklátt þessari viðurkenningu og er ánægt að framtaki fyrirtækisins í umhverfis- og loftslagsmálum sé sýndur áhugi og eftirtekt. Loftslagsviðurkenningin hvetur okkur enn frekar til áframhaldandi góðra verka í loftslags- og umhverfismálum.

Loftslagsvidurkenning 2019Starfsfólk EFLU með viðurkenningarskjal.

Loftslagsvidurkenning 2019Dagur B. Eggertsson afhenti verðlaunin.