Fréttir


Fréttir

EFLA hlýtur verðlaun í hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns

19.6.2017

EIMUR stóð nýlega fyrir samkeppni um nýtingu lágvarma á Norðurlandi eystra. EFLA lagði fram tillögu og hafnaði hún í öðru sæti í keppninni. Alls bárust 14 tillögur í samkeppnina. 

  • Hafsteinn Helgason verðlaun
    Hafsteinn Helgason tekur við verðlaunum í Hofi á Akureyri

Tillaga EFLU

Að mati EFLU er lykillinn að nýtingu lághita í Öxarfirði að framleiða dýra og mjög verðmæta útflutningsvöru og verðmæta vöru fyrir innanlandsmarkað. Tækifæri er í framleiðslu á þungu vatni, vetni og súrefni í Öxarfirði. Þetta er vegna þess að lágvarmi á svæðinu í kringum 130°C er fyrir hendi og gnægð af köldu vatni einnig. Með svokölluðu Girdler-Sulfid ferli má ná fram vatnslausn sem inniheldur hátt hlutfall af þungu vatni. Með rafgreiningu á þeim vökva fellur til þungt vatn, vetni og súrefni. Allt verðmætar og eftirsóttar vörur. Verðmæti framleiðslunnar réttlætir staðsetningu fjarri útflutningshöfn eða flugvelli. Við rafgreiningu á vatni fellur til mikið súrefni og því tilvalið að nota það í fiskeldi á landi, sem er töluvert fyrir í Öxarfirði.

Framtíðareldsneyti þyngri farartækja

Vetni er talið vera framtíðareldsneyti fyrir þyngri farartæki, s.s. flutningabíla, skip og flugvélar. Sem dæmi má nefna að í Evrópu eru nú þegar tæplega 80 vetnisafgreiðslustöðvar og þýskir, suður-kóreanskir og japanskir bílaframleiðendur hafa varið verulegum fjárhæðum í þróun bifreiða sem nota vetni. Þær eru fáanlegar á markaði. Skeljungur á Íslandi mun reisa þrjár vetnisafgreiðslustöðvar á næstu 2-3 árum á höfuðborgarsvæðinu. Vetni hentar einnig vel sem eldsneyti í svokallaðar toppstöðvar.

Þungt vatn m.a. notað í hátækniiðnaði

Þungt vatn er notað í kjarnakljúfa sem framleiddir eru í Kanada en þeir eru þeim eiginleikum gæddir að í þá þarf ekki eins auðgað úraníum eldsneyti og annars. Slíkir kjarnakljúfar eru einna helst í rekstri í Kína og Indlandi og er í þeim ríkjum mest framleitt af þungu vatni með gríðarlega hátt kolefnisspor vegna þeirrar orku sem til þarf. Þess utan er þungt vatn framleitt í Íran. Þungt vatn er í auknum mæli notað í hátækniiðnaði, s.s við framleiðslu á ljósleiðarastrengjum, hálfleiðurum og lyfjum svo fátt eitt sé nefnt. Töluverð aukning er á sölu milli ára og því allt sem bendir til þess að framleiðsla sem nemur 50-75 tonnum á ári muni vera hagkvæm. Engin framleiðsla er á þungu vatni í Evrópu, Ameríku, Japan, S-Kóreu eða Malasíu þar sem mest notkun er í hátækniiðnaði.

Vegna gnægðar af varmaorku með rétt hitastig, mikið af köldu og hreinu vatni, vegna hagstæðs orkuverðs, vegna legu Íslands sem eylands á öruggum stað og vegna góðra flugsamgangna er Ísland afar ákjósanlegur valkostur fyrir staðsetningu á verksmiðju sem nýtir Girdler-Sulfid ferli til framleiðslunnar.

EIMUR er samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu orkuauðlinda og aukinni nýsköpun í orkumálum á Norðurlandi eystra. 

Frétt RÚV um verðlaunaafhendinguna 

Tillögurnar sem bárust í keppnina