Fréttir


Fréttir

EFLA með starfsstöð á Hellu

Steinsholt, Hella, Gísli Gíslason, Suðurland, Sameining

3.1.2018

Um áramótin rann Steinsholt sf. á Hellu undir hatt EFLU verkfræðistofu en stofan hefur verið í eigu EFLU undanfarið ár. Við þessar breytingar verður EFLA með tvær skrifstofur á Suðurlandi, á Selfossi og á Hellu. 

  • steinsholt
    EFLA Suðurland er með starfsstöð að Hellu.

Gísli Gíslason tekur við sem svæðisstjóri EFLU á Suðurlandi en áður var Gísli framkvæmdastjóri Steinsholts. Engar breytingar verða á heimilisfangi, símanúmerum eða í hópi starfsfólks. Áfram verður lögð höfuðáhersla á öfluga starfsemi og góða þjónustu á svæðinu.

EFLA heldur úti umfangsmikilli og leiðandi starfssemi á landsbyggðinni með um 70 starfsmenn sem búa yfir fjölbreyttri þekkingu. Viðskiptavinir EFLU spanna flest svið samfélagsins, bæði opinbera aðila, stofnanir og fyrirtæki og í raun atvinnulífið allt í sinni fjölbreyttustu mynd. Kjarninn í þjónustunni snýr að ráðgjöf við uppbyggingu og rekstur innviða samfélagsins ásamt stuðningi við framþróun atvinnulífsins. EFLA leggur mikið upp úr að bjóða öfluga þjónustu úti á landi sem byggir á góðri samvinnu allra starfsstöðva.

EFLA verkfræðistofa er alhliða ráðgjafarfyrirtæki í verkfræði, tækni og tengdum greinum með yfir 350 starfsmenn. Slagorð fyrirtækisins er „allt mögulegt“ sem vísar bæði til fjölbreytninnar í starfseminni og þess lausnamiðaða hugarfars sem viðhefst í nálgun við viðskiptavini og viðfangsefni.

Fyrirtækið rekur meginstarfsemi sína á Íslandi, en um þriðjungur af veltu EFLU hefur á undanförnum árum komið frá erlendum verkefnum. Stærsti hluti erlendra verkefna eru í Noregi, sem að hluta eru unnin frá Íslandi og að hluta í Noregi. Á Íslandi eru höfuðstöðvar félagsins í Reykjavík, en EFLA hefur að auki starfsstöðvar á Selfossi, Reykjanesbæ, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Seyðisfirði, Þórshöfn, Húsavík, Akureyri og nú einnig á Hellu.