EFLA með samstarfssamning í Króatíu
EFLA og króatíska ráðgjafarfyrirtækið HEP ESCO D.O.O. hafa gert með sér samstarfssamning um ráðgjöf sem miðar að því að auka nýtingu jarðhita í Króatíu.
HEP ESCO er dótturfyrirtæki króatíska ríkisraforkufyrirtækisins HEP, sem er stærsta raforkufyrirtæki Króatíu.
HEP ESCO vinnur bæði að því að bæta orkunýtingu og virkja vannýtta orkugjafa eins og jarðhita - og um leið að hagnýta orkuna betur.
Samstarfið snýst um að nota jarðhita jafnt til húshitunar og iðnaðarferla sem raforkuframleiðslu. Töluverðan jarðhita (lághita) er að finna víða í Króatíu.
Fyrirtækin hafa þegar hafið grunnvinnu við uppbyggingu hitaveitu í einu bæjarfélagi, en bæjaryfirvöld þar eru mjög áhugasöm um nýtingu jarðhitans.
Þarna er um 80°C heitt vatn í jörðu. Þá hafa króatísk stjórnvöld óskað eftir aðild að verkefninu.
Samningur EFLU og HEP ESCO miðar enn fremur að því að byggja upp þekkingu á virkjun jarðhita í landinu þannig að króatískir aðilar geti tekið frumkvæði að nýtingunni í framtíðinni, auk þess að eiga samstarf við alþjóðlega ráðgjafa á þessu sviði.