Fréttir

EFLA og handritin: Nýjungar í byggingu

21.1.2009

EFLA tekur þátt í að koma upp nýrri byggingu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og íslenskuskor Háskóla Íslands. Hönnunin byggir á tillögu Hornsteina arkitekta ehf., (vinningstillögu úr samkeppni 2008). Byggingin verður sporöskjulaga og útveggir skreyttir handritatextum. Hönnun sækir í nýjungar hérlendis: BIM byggingarupplýsingalíkanið verður notað og unnið skv. "bips" (sjá hér neðar) og hönnunin höfð vistvæn samkvæmt Breeam-staðli (sjá neðar).

  • Handritasafn

EFLA tekur þátt í að koma upp nýrri byggingu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og íslenskuskor Háskóla Íslands. Hönnunin byggir á tillögu Hornsteina arkitekta ehf., (vinningstillögu úr samkeppni 2008). Byggingin verður sporöskjulaga og útveggir skreyttir handritatextum. Hönnun sækir í nýjungar hérlendis: BIM byggingarupplýsingalíkanið verður notað og unnið skv. "bips" (sjá hér neðar) og hönnunin höfð vistvæn samkvæmt Breeam-staðli (sjá neðar).
Verkkaupi er Menntamálaráðuneytið. Umsjón með verkefninu hefur Framkvæmdasýsla ríkisins, verkefnastjóri er Bergljót S. Einarsdóttir. Hornsteinar eru aðalhönnuðir (arkitektahönnun og landslagshönnun) en Almenna verkfræðistofan hf. annast hönnun burðarvirkis, lagna og raflagna. Samstarfshönnuðir hennar eru Alectia A/S á sviði lagnahönnunar, Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar og Arup Amsterdam á sviði raflagna, EFLA á sviði bruna- og hljóðvistar og vegna umhverfisvottunar. Áætlað er að Thomas Henriksen Glass Design veiti ráðgjöf vegna glugga- og glervirkishönnunar.
Almennum markmiðum framkvæmdarinnar var lýst í samkeppnislýsingunni 2008. Nýbyggingunni er ætlað að vera öruggur staður fyrir þjóðargersemarnar. Þar fer fram varðveisla skinnhandrita og annarra gagna, vísindarannsóknir og kennsla og ráðgjöf um málfarsleg efni en einnig verður þar vinnuaðstaða stúdenta og kennara. Gert er ráð fyrir sérhæfðu sýningarrými, fyrirlestraaðstöðu og kaffistofu.
Ráðgjafarstofurnar munu uppfyllta kröfur alþjóðlega staðalins ÍST ISO 9001:2000. Verkkaupi og hönnunarteymi vinna einnig eftir samkomulagi um verklag sem byggist á "bips" (byggeri, informationsteknologi, produktivitet, samarbejde), þ. e. skilmálum og kröfum sem unnar voru á vegum bips-samtakanna í samvinnu við dönsk stjórnvöld.
Við hönnunina munu ráðgjafar nota BIM byggingaupplýsingalíkan, sem verkkaupi nýtir áfram við framkvæmd og rekstur byggingarinnar. Skilgreind eru heildstæð líkön, í stað teikninga, á hverju stigi hönnunarinnar. Þetta verklag allt er nýlunda á Íslandi.
EFLA hefur umsjón með umhverfisvottun og mati á visthæfi helstu byggingarhluta. Byggingin verður vottuð sem vistvænt mannvirki skv. vottunarkerfi Breeam (British Research Establishment Environmental Assessment Method) og er þar stefnt er að stiginu „very good“.
Tímaáætlun hönnunar gerir ráð fyrir að líkan með aðaluppdráttum verði lagt fram í september 2009 og líkan með verkhönnun í september 2010.