EFLA og jarðhiti í Króatíu
Frá haustinu 2010 hefur verkfræðistofan EFLA unnið að jarðhitaverkefni í austurhluta Króatíu fyrir jarðhitafélag í eigu borgarinnar Slatina og nokkurra fjárfesta. Svæðið sem um er að ræða er í suðurjaðri Pannónísku sigdældarinnar. Þar eru þykk setlög á sprungnum berggrunni sem liggur á milli Karpatafjalla og Dinarikfjalla, austan Alpafjalla. Jarðskorpan á þessu svæði er óvenju þunn og því grynnra á niður á heitan möttulinn en víðast annars staðar í Evrópu. Þarna er hitastigull því nokkuð hár og því auknar líkur á nýtanlegum jarðhita. Á svæðinu var á kaldastríðstímum eins og víðar á Balkanskaga borað eftir olíu og gasi. Slíkar auðlindir er víða að finna á svæðinu, en oft komu í ljós vísbendingar um jarðhita. Á þessum tímum voru menn ekki í þeim stellingum að nýta þessa jarðhitaorku og var flestum holum sem ekki nýttust til olíuvinnslu lokað. Nú á tímum hlýnunar loftslags og ört hækkandi orkuverðs, hefur vaknað mikill áhugi á beislun jarðhitans í Króatíu og víðar á Balkanskaga.
EFLA er vel að sér hvað varðar möguleika á beislun jarðhita á Balkanskaganum. Samstarfsaðili EFLU í Króatíu er EIHP (Orkustofnun Króatíu). Í verkefninu fyrir Slatina í Króatíu er ÍSOR undirverktaki EFLU og sér um jarðeðlisfræðilegar mælingar. Mælingarnar þekja tæplega 70 km2 lands. Markmið mælinganna er að staðsetja hugsanlegt uppstreymi jarðhitans, sem myndi auðvelda boranir verulega og draga úr kostnaði. Hitastigið á svæðinu hefur hæst mælst á bilinu 70 til 180°C í allt að 5 km djúpum borholum. Vonir standa til þess að hægt verði að reisa þarna virkjun til raforkuframleiðslu. Varmaorka frá virkjuninni yrði seld til iðnaðar og húshitunar. Jarðhita- og viðskiptaþróunarteymi EFLU gera ráð fyrir töluverðum verkefnum á sviði jarðhita á þessu heimssvæði á næstu árum.
Jarðhita- og viðskiptaþróunarsvið EFLU vinna jafnframt að jarðhitaverkefnum á nokkrum stöðum í heiminum. Verkefnin eru á mismunandi stigi, allt frá því að vera á frumstigi yfirborðsrannsókna og umhverfismats yfir í ráðgjöf við staðsetningu og borun vinnsluhola til raforkuframleiðslu og til beinnar húshitunar og iðnarnota.