Fréttir


Fréttir

EFLA og Klappir hefja samstarf

16.8.2017

EFLA og Klappir hefja samstarf um heildstæðar lausnir í umhverfismálum til viðskiptavina. Samstarfið felur í sér að EFLA veitir ráðgjöf varðandi umhverfis- og mælalausnir og Klappir útvegar umhverfishugbúnað til slíkra lausna.

Markmiðið með samstarfinu er að geta veitt viðskiptavinum fyrirtækjanna heildstæðari og betri þjónustu þar sem EFLA verður með sérþekkingu á hugbúnaðarlausnum Klappa og getur innleitt þær hjá  viðskiptavinum og Klappir verða með góða þekkingu á þeirri umhverfis- og mælaþjónustu sem EFLA veitir og getur miðlað henni til  viðskiptavina.

Alhliða ráðgjafaþjónusta í umhverfismálum

EFLA hefur sérhæft sig í mælilausnum og hugbúnaði til aflestrar og vinnslu á mæligögnum og framsetningu gagna. Sömuleiðis hefur EFLA áralanga reynslu af stefnumótun og innleiðingu umhverfisstjórnunar m.a. skv. ISO 14001 staðlinum og endurskoðun græns bókhalds og gerð vöktunarskýrslna . EFLA hefur sérhæft sig í útreikningum á vistspori skv. alþjóðlegum stöðlum, sem og ráðgjöf er varðar m.a. úrgangsstjórnun og orkumál.

Hugbúnaðarlausnir á sviði umhverfismála

Hugbúnaður Klappa myndar traustan grunn fyrir fyrirtæki, sveitarfélög, borgir og stofnanir til að ná góðum árangri í umhverfismálum. Viðskiptavinir geta upplýst um árangur í umhverfimálum á einfaldan og gagnsæjan hátt. Lausnir Klappa eru staðlaðar þannig að allir viðskiptavinir vinna með hugbúnaðinn á sama hátt, fá sams konar upplýsingar og miðla upplýsingum á sambærilegu formi. Klappir leggja mikla áherslu á að byggja inn í hugbúnaðinn lausnir sem lækka rekstrarkostnað, auðvelda miðlun á upplýsingum um árangur og styðja við notendur í að fylgja umhverfislögum og reglugerðum.

EFLA og Klappir bjóða nú viðskiptavinum sínum heildstæðar hugbúnaðarlausnir og ráðgjöf, allt frá mælilausnum og gagnasöfnun, til birtingar gagna og framsetningu þeirra sem og ráðgjöf um virka umhverfisstjórnun og umbætur á sviði umhverfismála. Samstarfið eykur þjónustu við viðskiptavini, styður við sókn fyrirtækjanna og fjölgar tækifærum þeirra á ólíkum og vaxandi mörkuðum.

Við fögnum þessu nýja samstarfi og bjóðum Klappir velkomna til samstarfs.