Fréttir

EFLA og olían

16.1.2009

Á Alþingi 2007-2008 var samþykkt þingsályktun um að ríkisstjórnin aðstoðaði Vopnafjarðarhrepp og Langanesbyggð við að undirbúa og kanna þörf á þjónustumiðstöð fyrir olíuleitarskip á Drekasvæðinu.

  • Drekasvæðið

Sveitarfélögin stofnuðu hlutafélag til þess að vinna að undirbúningi málsins.

Verkefnið var boðið út í mars 2008 meðal verkfræðistofa með reynslu í sambærilegum verkefnum.

Var samið við Línuhönnun (nú EFLA) og Almennu verkfræðistofuna um sérfræðiaðstoð við þarfagreiningu og staðarvalsathugunum fyrir þjónustumiðstöð á svæðinu vegna olíuleitar, ýmissa rannsókna, og síðar, hugsanlega olíuvinnslu.

Verkefnið fólst í þarfagreiningu fyrir starfsemi olíuleitarfyrirtækja á fyrstu tveimur stigum olíuleitar, þ.e.a.s. við mælingar og tilraunaboranir og síðar boranir dýpri hola ef í ljós kemur að slíkt sé æskilegt.

Þessi fyrstu ferli geta tekið allt að 8-10 ár.

Að þeim tíma liðnum gætu vinnsluboranir hafist.

Einnig átti að meta möguleika á byggingu þjónustusvæðis í Gunnólfsvík í Finnafirði vegna vinnslu olíu og gass.

Til þess þurfti m.a. að greina þá aðstöðu sem fyrir er og frekari uppbyggingu hennar með hliðsjón af notkunar-, umhverfis- og öryggiskröfum.

Niðurstöður skýrslunnar eru m.a. þær að heppilegt væri að byggja upp þjónustu þarna eystra, á olíuleitarstiginu.

Í upphafi verði að mestu nýtt núverandi mannvirki í sveitarfélögunum, þ.e. hafnir, flugvellir og önnur aðstaða.

Jafnframt eru aðstæður í Gunnólfsvík til frekari uppbyggingar taldar mjög fýsilegar ef olía og gas finnst.

Úthluta á fimm olíuleitarleyfum síðari hluta ársins