Fréttir


Fréttir

EFLA og vistvæn vottun bygginga

29.12.2009

Mannvirkjagerð fer ekki varhluta af áberandi þróun á öllum sviðum samfélags okkar. Leitað er betri lausna sem draga úr orkunotkun og auðlindanýtingu.

  • Haust

Vottunarkerfi á borð við BREEAM kerfið leiðbeinir mannvirkjagerð í átt að vistvænni og sjálfbærari mannvirkjum.

Markmiðið með BREEAM vottunarkerfinu er að hvetja til sem vistvænstrar hönnunar bygginga en líka að hvetja til betri umhverfisstjórnunar á verktíma og rekstrartíma byggingar.

Einnig er lögð áhersla á þætti sem stuðla að heilsusamlegra umhverfi fyrir notendur.

BREEAM stendur fyrir British Research Establishment Environmental Assessment Method og er matskerfi sem upprunalega er þróað og notað í Bretlandi en er nú líka til fyrir alþjóðlegan markað.

Alls eru yfir 115.000 BREEAM vottaðar byggingar í heiminum og 700.000 byggingar í vottunarferli.

Hér á landi eru þrjár byggingar í vottunarferli skv. BREEAM vottunarkerfinu og hefur EFLA sinnt ráðgjöf um vistvæna hönnun og vottun þeirra.

Ástæða þess að valið var að fylgja BREEAM vottunarferlinu frekar en öðrum, eru þær að kerfið býður upp á möguleika á að sérsníða kröfurnar að mismunandi tegundum bygginga í alþjóðlegu BREEAM vottunarkerfi og að kröfurnar byggja á evrópskum lagagrunni og viðmiðum.

Viðmiðunarkröfunum í BREEAM vottunarkerfinu hefur verið skipt upp í 9 flokka og hefur hver flokkur fast vægi.

Í hverjum flokki eru mismargar kröfur sem hver gefur ákveðinn stigafjölda, sé krafan uppfyllt.

Þannig er safnað stigum og er gefin einkunn í samræmi við stigafjölda.

Einkunnirnar eru fimm talsins.

Til þess að ná Very good einkunninni þarf að ná 55% stiga, 70% til að ná Excellent og 85% til að ná Outstanding.

Vottunarferlið er þannig að fyrst fer fram úttekt á hönnunarstigi og síðar lokaúttekt fullbúinnar byggingar.

Matsmenn með réttindi til úttekta á BREEAM kerfinu sjá um ráðgjöf og úttektir.

Skýrslur eru sendar til BRE (Breska rannsóknarstofnunin í byggingariðnaði) sem gefur út einkunn og vottunarskjal.

Af þessum 9 flokkum vegur orkunotkun í byggingunni mest eða 19%. Þar á eftir er flokkurinn heilsa og vellíðan notenda, 15%. Í þessum flokki eru kröfur t.d. gerðar varðandi hljóðvist, lýsingu, hitastýringu og inniloftgæði.

Í flokknum byggingarefni sem vegur 12,5 % eru gerðar kröfur um umhverfisvænleika byggingarefnanna.

Umhverfisstjórnun vegur 12% og er þar átt við umhverfisstjórnun verktaka og framleiðenda byggingarefna.

Einnig nær umhverfisstjórnunin til rekstrartíma byggingarinnar.

Kröfur á sviði samgangna vega 8%.

Í flokknum landnýting og vistfræði er hvatt til nýtingar áður raskaðs lands frekar en óraskaðs og að stuðlað sé að auknu vistfræðilegu gildi svæðisins .

Úrgangsmál vega 7,5% þar sem hvatt er til lágmörkunar úrgangs, flokkunar og endurvinnslu á byggingartíma og flokkun úrgangs á notkunartíma byggingarinnar.

Vatnsnotkun byggingarinnar vegur 6%.

Að síðustu er flokkurinn mengun en þar er að finna ýmsar ólíkar kröfur sem miða að því að lágmarka umhverfisáhrif byggingarinnar t.d. til kælimiðla, næturlýsingar og hávaða frá byggingunni.