Fréttir


Fréttir

EFLA tekur þátt í Arctic Circle

13.10.2017

Arctic Circle alþjóðleg ráðstefna um Norðurslóðir verður haldin í fimmta skipti þann 13.-15. október í Hörpu. EFLA hefur tekið þátt í Arctic Circle frá upphafi og komið að skipulagningu ýmissa málstofa sem þar fara fram. 

  • Arctic Circle

Fyrir ráðstefnuna í ár sat EFLA, ásamt Landsvirkjun Power, Verkís, Mannvit og Ístak, í starfshópi um orkumál og innviðauppbyggingu við erfiðar aðstæður. Starfshópurinn kom að skipulagningu tveggja málstofa, annars vegar um tilkomu vatnsaflsvirkjunar í Ilulissat á Grænlandi og hins vegar um sögu innviðauppbyggingu á Íslandi.

Vatnsaflsvirkjun í Ilulissat á Grænlandi

Á fyrri málstofunni, sem fer fram á laugardeginum, verður fjallað um þær breytingar er eiga sér stað í Iluissat með tilkomu vatnsaflsvirkjunar sem leysir af hólmi eldsneytisstöð við raforku­framleiðslu fyrir bæjarfélagið. Um er að ræða viðamikla framkvæmd sem kallar á auknar samgöngur og flutninga á svæðið sem hefur samhliða opnað á aukin tækifæri fyrir ferðamanna­iðnaðinn á svæðinu.

Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks, mun fjalla um virkjunarframkvæmdina og Svend Hardenberg, fyrrum framkvæmdarstjóri Nukissiorfiit (opinbert orkuvinnslufyrirtæki Grænlands), mun segja frá reynslu samfélagsins af því að skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa og hver áhrifin hafa verið á samfélagið. Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrum ráðherra orkumála, atvinnu og ferðaþjónustu, mun að lokum ræða um hvernig halda megi áfram og skapa aðstæður fyrir sjálfbært samfélag með áherslu á fiskiðnað, ferðaþjónustu og fleira. 

Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri EFLU, stýrir umræðunni.

Saga innviðauppbyggingar á Íslandi

Síðari málstofan fer fram á sunnudag og þar verður fjallað um sögu Íslands og hvernig land og samfélag hefur byggst upp þrátt fyrir afar erfið veðurskilyrði. Guðni A Jóhannesson, orkumálastjóri, fer yfir sögu innviðauppbyggingar á Íslandi. Guðmundur Pétursson, verkefnastjóri hjá Landsvirkjun, mun fjalla um hvernig byggja má upp sérhæfða þekkingu í litlu samfélagi, og nefna sem dæmi þekkingu Íslendinga á vatnsaflsvirkjunum. Helga Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs RARIK, ræðir um rekstur orkumannvirkja við erfiðar veðuraðstæður. 

Ragnheiður Elín Árnadóttir stýrir umræðum.

Nánari upplýsingar um Arctic Circle