Fréttir


Fréttir

EFLA tengir byggðir í N-Noregi

19.12.2014

EFLA verkfræðistofa hefur með höndum tæknilega ráðgjöf og heildarhönnun endurnýjunar á tveimur samsíða jarðgöngum í N-Noregi sem tengja 72000 manna byggð á Tromsö eyju við meginland Noregs.
  • Neðanjarðargöng í Tromso

Framundan er endurnýjun á tveimur samsíða jarðgöngum í N-Noregi, Trömsöysundtunnelen, sem tengja 72.000 manna byggð á Tromsö eyju við meginland Noregs. Göngin eru aðal umferðaræðin frá Tromsø til meginlandsins og um þau aka að meðaltali um 15 þúsund bílar á sólarhring. Breytingunum er ætlað að auka umferðaröryggi vegfarenda. EFLA verkfræðistofa hefur með höndum tæknilega ráðgjöf og heildarhönnun framkvæmdarinnar. Verkefnið er tæknilega flókið og afar krefjandi á framkvæmdatíma, þar sem halda þarf göngunum virkum allan tímann. Verkefnið er umfangsmikið og hafa starfsmenn EFLU á fjölmörgum sviðum lagt hönd á plóginn síðustu 30 mánuðina. EFLA skilaði nýverið af sér útboðsgögnum vegna verksins.

Göngin eru hvor um sig u.þ.b. 3,5 km að lengd og eru þau tengd saman með neyðargöngum með 250 metra millibili. Í verkinu er öllum raf- og öryggisbúnaði gangnanna skipt út, og breytingar gerðar á tæknirýmum og dælubúnaði við afar þröngar aðstæður. Einnig eru gerðar breytingar á umferðarstýringum við gangamunnana, svo hægt verði að víxla umferð í gegnum göngin bæði á framkvæmdartíma og eftir að þau verða tekin í notkun aftur. Meðal þess búnaðar sem settur verður í göngin er myndavélakerfi með radarskynjun, sem gerir stjórnstöð ganganna kleift að fylgjast með öllu því sem fram fer í göngunum. Radarkerfið sendir t.d. viðvaranir ef gangandi eða hjólandi vegfarendur eru á ferð í göngunum eða kyrrstæðir hlutir standa á veginum. Um 5.000 manntímar hafa verið unnir í verkinu hjá EFLU á Íslandi, en áætlaður kostnaður heildarframkvæmdarinnar er um 2 milljarðar íslenskra króna.

Verkefnið krefst mikillar samræmingar á umferðastýringum við útskiptingu á búnaði ganganna, þar sem öll kerfi í göngunum þurfa að vera virk á verktíma. Þetta gerir miklar kröfur um tæknilegar útfærslur og framkvæmdaröð. Unnið verður bæði með næturlokunum og víxlandi umferð í göngunum með á verkinu stendur. Framkvæmdatíminn er áætlaður 18 mánuðir og hefst verkið næsta vor.