Fréttir


Fréttir

EFLA tilnefnd til loftslagsviðurkenningar

Loftslagsviðurkenning, Verðlaun, Loftslagsmál, Festa

30.11.2018

Á árlegum loftslagsfundi hlaut EFLA tilnefningu til loftslagsviðurkenningar Festu og Reykjavíkurborgar. Viðurkenningin er veitt þeim fyrirtækjum sem þykja hafa lagt sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og náð eftirtektarverðum árangri í málaflokknum.

  • Tilnefning til EFLU
    Kampakátir starfsmenn EFLU með viðurkenningarskjal Reykjavíkurborgar og Festu.

Loftslagsfundinn sóttu um 150 aðilar víðsvegar frá stjórnsýslunni og atvinnulífinu. Yfirskrift fundarins var „Hugsum lengra – nýsköpun í loftslagsmálum“ og meðal þeirra sem héldu erindi á ráðstefnunni voru Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindarráðherra, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. 

Örerindi um kolefnisspor

Samhliða erindum fór fram samtalstorg og héldu fyrirtæki stuttar kynningar á loftslagstengdum verkefnum sínum. Sigurður Thorlacius, umhverfisverkfræðingur hjá EFLU, hélt stutt erindi um vistferilsgreiningu sem var gerð fyrir viðbyggingu við Sundhöll Reykjavíkur. Greiningin fólst í að reikna út kolefnisspor og önnur umhverfisáhrif á vistferil byggingarinnar ásamt því að vera liður í BREEAM vottun byggingarinnar. „Talið er að um 40% orku- og hráefnanotkunar í Evrópu sé tilkomin vegna bygginga og byggingariðnaðar, ásamt því að valda um 36% losunar koltvíðoxíðs, CO₂.  Á Íslandi hefur þetta lítið verið rannsakað og því sannarlega tækifæri til úrbóta.“ sagði Sigurður.

Víðtæk áhrif

Umhverfis- og loftslagsmál hafa verið samofin starfsemi EFLU allt frá árinu 2004. Hjá fyrirtækinu er unnið markvisst að nýsköpun, rannsóknum og þróun í umhverfismálum og er EFLA aðili að UN Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna. EFLA hefur skilgreint skammtíma og langtíma markmið til að draga úr kolefnisspori  í innri starfsemi og í ytri starfsemi er reynt að stuðla að jákvæðari umhverfisáhrifum í verkefnum. Meðal þess árangurs í loftslags- og umhverfismálum sem náðst hefur er:

  • EFLA varð kolefnishlutlaust árið 2017
  • Endurvinnsluhlutfall úrgangs stefnir í 90% fyrir árið 2018
  • Rúmlega 30% bíla EFLU eru hreinir rafbílar
  • Hvatt er til vistvæns ferðamáta starfsmanna til og frá vinnu m.a. með  samgöngusamningum við starfsmenn, hjólageymslu, sturtuaðstöðu og rafhjólum
  • Starfsmenn geta nýtt sér rafhleðslu fyrir bíla sína á höfuðstöðvum EFLU, Lynghálsi 4
  • Árlega er haldin umhverfisvika þar sem starfsmenn fá fræðslu um umhverfismál

Fjögur fyrirtæki tilnefnd

Á loftslagsfundinum, sem haldin var í Hörpu 29. nóvember, voru fyrirtækin ÁTVR, EFLA, IKEA og Klappir tilnefnd til loftslagsviðurkenningar Reykjavíkur 2018 og komu verðlaunin í hlut Klappa. Við óskum þeim hjartanlega til hamingju með nafnbótina og þökkum jafnframt tilnefningu okkar sem mun verða okkur hvatning til áframhaldandi góðra verka í loftslags- og umhverfismálum. 

Tengdar fréttir

LoftslagsfundurFulltrúar fyrirtækjanna fjögurra sem hlutu tilnefningu til loftslagsverðlaunanna ásamt fulltrúum Reykjavíkurborgar og Festu.

LoftslagsfundurLíf Magneudóttir afhendir Helgu J. Bjarnadóttur hjá EFLU viðurkenninguna.

LoftslagsfundurSigurður Thorlacius frá EFLU hélt erindi um kolefnisspor.

LoftslagsfundurFjölmargir gestir sóttu fundinn.