Fréttir

EFLA undirritar fjórða rammasamninginn við norsku vegagerðina

24.9.2012

EFLA verkfræðistofa undirritaði nýlega fjórða rammasamninginn sem félagið hefur gert við Statens Vegvesen, eða norsku vegagerðina. Samningurinn tekur til margvíslegra verkefna á sviði hönnunar samgöngumannvirkja í Noregi.
  • Framkvæmdir í Noregi

Umsvif EFLU verkfræðistofu í samgönguverkefnum í Noregi, tvöfaldast milli ára:

Uppbygging á vegum Statens Vegvesen fer fram á fimm megin svæðum, á austursvæði, suðursvæði, vestursvæði, miðsvæði og norðursvæði, og hefur EFLA rammasamning við Statens Vegvesen á fjórum þessara svæða. Nú nýverið var staðfestur rammasamningur um austursvæðið sem innifelur m.a. Osló. Eru verkefnin mjög fjölbreytt, og starfa sérfræðingar EFLU á Íslandi á mörgum sviðum við vinnu verkefnanna.  Má þar nefna sérfræðinga í vegahönnun, brúarhönnun, jarðgangahönnun, rafmagnskerfum og stýringum, umferðartækni, umhverfismálum, fráveitum, hljóðvist, jarðtækni og viðhaldi mannvirkja.

Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri EFLU:

"EFLA verkfræðistofa hefur á undanförnum árum skapað sér sterka stöðu á norska markaðnum við verkfræðiráðgjöf í fjölbreyttum verkefnum um allt landið. Umsvif EFLU í samgönguverkefnum í Noregi hafa tvöfaldast milli ára og ársvelta EFLU samstæðunnar í norskum verkefnum nálgast nú milljarð íslenskra króna. Vinnuframlagið er um fjörutíu mannár íslenskra sérfræðinga fyrirtækisins og þar með er  Noregur orðinn stærsti markaður EFLU utan Íslands.?

Verkefnin felast m.a. í:  Hönnun vega, hönnun brúa, hönnun jarðganga í heild, hönnun kerfa í jarðgöng eða endurnýjun, hönnun göngu- og hjólreiðastíga, hönnun strætóleiða, umferðartæknilegri hönnun, hönnun fráveitukerfa frá vegum, hljóðgreiningum og hönnun hljóðvarna, öryggisúttektum á vegum og eftirliti með framkvæmdum.

Sem dæmi um verkefni:

Vestursvæði: Solasplitten við Stavanger (sjá meðfylgjandi ljósmynd), sem er stór vegaframkvæmd á aðalvegi frá flugvellinum. Þar sér EFLA um hönnun á lögnum og fráveitukerfi, settjörnum og ýmsum öðrum verkþáttum.

Norðursvæði: Langsundforbindelsen fyrir norðan Tromsö þar sem um 3km jarðgöng milli eyja undir sjó eru hönnuð í heilu lagi af EFLU og með öllum kerfum. Hamnöy tunnel verkefnið við Lofoten er að hefjast, þar sem öll rafkerfi eru hönnuð af EFLU.

Miðsvæði: Keiserås-Olsöy verkefnið rétt norðan við Þrándheim sem felur í sér heildarhönnun á 13 km vegi með fráveitu, hljóðvörnum, frágangi á landi og hönnun á tveimur brúm á þessari leið.

Austursvæði: Lilleström Skersmokorset, hönnun strætóleiða, stíga og undirganga fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, hljóðvarnir og fráveitukerfi

noregur_samgongurKortið sýnir samgönguverkefni EFLU í Noregi