Fréttir


Fréttir

Eldvarnarmál - Höfðatorgsturninn

10.1.2014

Brunahönnun bygginga og reglubundið eftirlit með búnaði ásamt rýmingar- og viðbragðsæfinum er forsenda þess að tryggja öryggi fólks og eigna. EFLA hefur tekið að sér ráðgjöf varðandi uppsetningu á eigin eldvarnareftirliti fyrirtækja ásamt rýmingaráætlunum og æfingum. Eitt af þeim fyrirtækjum er turninn á Höfðatorgi þar sem EFLA var með brunahönnun byggingarinnar.
  • Turninn við Höfðatorg
Þriðjudaginn 7. janúar sl. var tilkynnt um eld í turninum Höfðatorgi. Allt tiltækt slökkvilið var boðað á staðinn og byggingin rýmd. Ekki reyndist vera um eld að ræða heldur hafði hraðabreytir fyrir loftræsingu brunnið yfir og því nokkur reykur í tæknirými á 20. hæð sem er efsta hæð hússins.

Þessi atburður hlaut talsverða umfjöllun í fjölmiðlum enda um eina hæstu byggingu í Reykjavík að ræða. Turninn er háhýsi í brunatæknilegum skilningi þar sem körfubilar slökkviliðsins ná ekki nema til 8. hæðar. Í turninum er fjöldi fyrirtækja með margskonar starfsemi. Rýmingin hafði því víðtæk áhrif þar sem um 600 einstaklingar voru í byggingunni þegar atburðurinn átti sér stað.

Frekari upplýsingar um brunavarnir Höfðatorgsturnsins

Höfðatorgsturninn hefur steinsteypt burðarvirki en stálvirki er í glerhjúpi. Turninn er allur varinn með vatnsúðakerfi. Fullkomið brunaviðvörunarkerfi er einnig í byggingunni. Ekki eru hefðbundnar brunabjöllur í húsinu, þess í stað koma töluð skilaboð þegar þörf er á og einnig er hægt að tala beint inn í kerfið, sem hentar mjög vel til að koma nánari upplýsingum á framfæri. Rýmingarboð frá kerfinu eru svæðaskipt.

Í háturninum eru tveir óháðir stigahúskjarnar og í öðrum þeirra er biðsvæði fatlaðra þaðan sem hægt er að gefa boð sem birtast á skjá brunastöðvar. Dæmi um önnur brunatæknileg kerfi í turninum eru vatnsfyllt stigleiðsla, yfirþrýst stigahús, reykræsing, sérstök slökkviliðslyfta og til staðar er sérstakt öryggisrými þaðan sem slökkvilið hefur aðgengi að teikningum og upplýsingum um brunatæknileg kerfi allra bygginga á svæðinu.

Í byggingum sem þessari er mikilvægt að virkni og viðhald kerfa sé í lagi og að mannlega þættinum þ.e. þjálfun starfsfólks og kynning á réttum viðbrögðum við bruna, sé sinnt. Í Höfðatorgsturninum sér hvert fyrirtæki um eigið eldvarnaeftirlit og notar til þess tölvutækan grunn sem EFLA hefur umsjón með. Eigið eldvarnaeftirlit felst m.a. í mánaðarlegu eftirliti með handslökkvibúnaði, út- og neyðarlýsingu, að rýmingarleiðir séu auðar svo eitthvað sé nefnt. Hjá hverju fyrirtæki fyrir sig er eldvarnafulltrúi sem sér um eftirlitið, hann er auk þess rýmingarfulltrúi síns fyrirtækis og sér til þess að starfsmenn fái upplýsingar um öryggismál. Á öllum hæðum hanga flóttaleiðamyndir á áberandi stöðum þar sem er að finna rýmingaráætlun og leiðbeiningar.

Sjá PDF skjal með leiðbeiningum.