Fréttir


Fréttir

Fastmerki í Rangárþingi

5.9.2017

Undanfarið hafa starfsmenn EFLU á Suðurlandi unnið að uppsetningu nýrra fastmerkja á Hellu og Hvolsvelli í samstarfi við sveitarfélögin Rangárþing Eystra og Rangárþing Ytra. Fastmerki eru notuð sem viðmiðunarpunktar fyrir mælitæki við landmælingar. 

  • Fastmerki í Rangárþingi
    Fastmerki í Rangárþingi

Eldri fastmerki á svæðunum voru ýmist orðin óaðgengileg vegna framkvæmda eða staðsetning þeirra orðin véfengjanleg vegna landreks undanfarinna áratuga.

Fyrirkomulag við landmælingar

Þegar unnið er við landmælingar með GPS tækjum eru oftast notuð tvö tæki, annars vegar handtæki sem starfsmaður gengur um með, og hins vegar grunnstöð sem er stillt upp á fastmerki. Grunnstöðin og handtækið safna gögnum á sama tíma frá gervitunglum á braut um jörðu til að tryggja nákvæmni og rekjanleika í mælingum. Tækin hafa samskipti sín á milli með útvarpsbylgjum og því er heppilegra ef fastmerki, og þar með grunnstöðin, séu staðsett ofarlega, t.d. uppi á hæð eða hárri byggingu, til að tryggja örugg samskipti milli handtækis og grunnstöðvar. Einnig þarf huga að því að fastmerkið hreyfist sem minnst með tímanum, t.d. vegna hreyfinga á jarðvegi.

Fjölmörg mælingaverkefni í Rangárvallasýslu

Á undanförnum misserum hefur verið mikil aukning í mælingaverkefnum EFLU í Rangárvallasýslu og má þar m.a. nefna mælingar í kringum nýbyggingu LAVA á Hvolsvelli, viðbyggingu við Dvalarheimilið Lund á Hellu, mælingar vegna fyrirhugaðra virkjana­framkvæmda í Þjórsá en auk þess hefur verið mikil aukning í landmælingum vegna landa og lóðamarka á svæðinu.

Nýju fastmerkin á Hellu og Hvolsvelli eru með ryðfríum gengjum þannig að hægt er að skrúfa grunnstöð beint á fastmerkið í stað þess að nota þrífót. Slíkt er mun fljótlegra í uppsetningu og niðurtekt auk þess sem sem minni líkur eru á mæliskekkjum vegna mistaka við uppstillingu búnaðar. Fastmerkið á Hvolsvelli er staðsett upp á hæð norðan við Stórólfs­hvolskirkju og fastmerkið á Hellu er við Ægissíðu.

Staðsetning nýju fastmerkjanna var mæld miðað við fastmerki frá Landmælingum Íslands.