Fréttir

Fimm orkuerindi EFLU á Fagþingi rafmagns

samorka, fagþing, orka, orkusvið, park inn, orkumál

31.5.2019

EFLA var áberandi á Fagþingi rafmagns sem Samorka stóð að og var starfsfólk okkar með fimm erindi. Ráðstefnan er haldin á þriggja ára fresti og tekur á því helsta sem viðkemur starfsemi orku- og veitufyrirtækja.

  • Fagþing Samorku - EFLA tekur þátt með fimm erindi og kynningarbás
    Ingvar, Kolbrún, Jónas og Jón starfsfólk EFLU á Fagþingi rafmagns sem fram fór í Reykjanesbæ.

Fyrirtæki sem sinna ráðgjöf, framleiðslu, flutningi, dreifingu og sölu á raforku koma saman og ræða það sem efst er á baugi. Fagþingið fór fram á Park Inn hótelinu í Reykjanesbæ dagana 22-24 maí, þátttakendur voru 303 talsins og var dagskráin metnaðarfull þar sem 80 erindi voru flutt. Samhliða erindum var vöru- og þjónustusýning og var EFLA með kynningarbás á staðnum.

Jónas Hlynur Hallgrímsson, orkuhagfræðingur.

Hagræn greining á landtengingu skemmtiferðaskipa

Jónas Hlynur Hallgrímsson fjallaði um hagrænt mat á landtengingum skemmtiferðaskipa í Sundahöfn við rafdreifikerfið. Matið byggði á gögnum frá Faxaflóahöfnum um komur skemmtiferðaskipa og var kostnaður við að koma raforku um borð í skipin metinn sérstaklega. Aflþörf skemmtiferðaskipa er mikil og nauðsynlegt er að fjárfesta í dýrum rafbúnaði. Þær gjaldskrár sem Veitur eru með nú standa ekki undir kostnaði við nauðsynlegan búnað.

Ingvar Júlíus Baldursson, rafmagnstæknifræðingur.

Snjallvæðing raforkumæla – hver er staðan?

 Ingvar Júlíus Baldursson fjallað um stöðu snjallvæðingu raforkumæla á Íslandi og Norðurlöndum. Rætt var um hugtakið snjallmælir og ávinning dreifiveitna, almennings og samfélagsins með tilkomu snjallmæla. EFLA gerði könnun meðal dreifiveitna um notkun snjallmæla eða búnaðar sem sækir sjálfvirkt mælaálestur og voru niðurstöður kynntar.

Kolbrún ReinholdsdóttirKolbrún Reinholdsdóttir, rafmagnsverkfræðingur. 

Áhrif nýrra virkjana og flutningslína á áreiðanleika afhendingar raforku á Vestfjörðum

Kolbrún Reinholdsdóttir kynnti skýrslu sem var unnin fyrir Landsnet um áreiðanleika raforkuafhendingar á Vestfjörðum. Áreiðanleiki afhendingar á Vestfjörðum hefur í mörg ár verið verri þar en á öðrum stöðum á landinu. Landsnet hefur því verið að skoða ýmsar lausnir til að bæta afhendingaröryggið og eru í þessari skýrslu kynntar nokkrar leiðir og þær bornar saman út frá ávinningi í afhendingaröryggi.

Sjá nánar skýrslu á vef Landsnets.

Jón Vilhjálmsson, rafmagnsverkfræðingur. 

Þróun raforkugeirans í ljósi raforkulaganna frá 2003

Jón Vilhjálmsson fjallaði um árangurinn af raforkulögunum en nú eru komin um einn og hálfur áratugur síðan raforkulögin tóku gildi og mikil og góð reynsla komin af þeim lögum. Samkeppni hefur verið virk í sölu raforku til fyrirtækja og tekjumörk fyrir flutning- og dreifingu raforku hafa reynst vel. Á næstu árum þarf m.a. að tryggja betur samkeppni í sölu raforku til heimila og huga þarf betur að orkuöryggi. Nánar er fjallað um þessa þætti í skýrslu sem unnin var fyrir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. 

Sjá nánar skýrslu á vef Ráðuneytisins.

Birta Kristín Helgadóttir, umhverfis- og orkuverkfræðingur. 

Gréta Hlín Sveinsdóttir, M.Sc. í landupplýsingatækni.

Staðarval vindorku – hvað þarf að hafa í huga

Birta Kristín ásamt Grétu Hlín hafa unnið að verkefnum tengdum vindorku hjá EFLU og hélt Birta Kristín erindi þar sem fjallað var um staðarval vindorku og hvaða aðferðir eru gagnlegar til slíkrar vinnu. Aðferðin byggir á fjölþátta greiningu viðmiða í landupplýsingakerfi þar sem takmarkanir og áhrifaþættir eru skilgreindir, kortlagðir, gefið ákveðið vægi og loks bornir saman. Með þessu móti má leggja mat á hentug svæði, styðja við ákvarðanatöku, draga úr vandamálum sem geta komið upp á síðari stigum og stuðla að meiri sátt um verkefni meðal almennings og hagsmunaaðila.