Fréttir


Fréttir

Flóðavarnir í Kvosinni

23.11.2015

EFLA hefur undanfarin misseri verið að kanna flóðahættu í Reykjavík og með hvaða hætti megi vernda byggð í Kvosinni. Skýrsla um málið, sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg, Viðlagatryggingu Íslands, Slökkviliðið á Höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóahafnir og Orkuveitu Reykjavíkur og í samvinnu við Studio Granda var gefin út nýlega.
  • Áhættugreining flóða

Vegna loftlagsbreytinga og afleiðinga þeirra hefur sjávarstaða almennt verið að hækka í heiminum og aftaka veðuratburðum að fjölga. Þessar breytingar leiða meðal annars til þess að sjávarflóð verða æ algengari.

Ástæða þess að Kvosin í Reykjavík er sérstaklega viðkvæm fyrir sjávarflóðum er fjölþætt. Á Reykjavíkursvæðinu á sér stað landsig en sjávarstaða fer einnig hækkandi. Sjávarstaða í Reykjavíkurhöfn hefur verið mæld síðan 1956 og landsig í Reykjavík hefur verið mælt með GPS mælingum frá árinu 1997. Mælingarnar sýna að landsig í Reykjavík hefur verið um 2,1 mm/ári síðan GPS mælingar hófust árið 2007. Bein sjávarborðshækkun hefur verið um 1,5 mm/ári á þessu árabili. Líklegt þykir að landsig eigi eftir að halda áfram í Reykjavík og einnig að hlýnun jarðar, sem leiðir til bráðnunar jökla og útþenslu sjávar, valdi áframhaldandi breytingum á sjávarborði í framtíðinni. Þessa ferla má því framlengja til framtíðar. Nýlegar rannsóknir á áhrifum jökla á hækkun sjávarborðs benda til þess að sjávarborð á hafsvæðum í grennd við Ísland kunni að hækka um 0,5-1 m til ársins 2100. Samanlögð áhrif landsigs og hækkunnar sjávarborðs er að væntanleg hækkun sjávarstöðu í Reykjavík er metin í kringum 0,6-1,2 m fram til ársins 2100.

Meðal stórstraumsflóð er í dag 2,18 m en hæsta flóð sem mælt hefur verið var 3,27 m. Líklegt er að meðalstórstraumsflóð verði um 2,8-3,4 m árið 2100 og framreiknaður atburður á borð við Básendaflóðið yrði árið 2100 í kringum 5,8-6,4 m. Núverandi hæð hafnarbakkanna við Mið- og Austurbakkann er hins vegar 3,53 m.

Ógnin sem stafar af sjávarflóðum í Kvosinni er tvíþætt; annars vegar vegna aftakaflóða í ætt við Básendaflóðið, sem ættu að vera mjög ólíkleg, og hins vegar vegna minni en tíðari flóða. Markmið skýrslunnar er fyrst og fremst að velta upp ýmsum möguleikum til að verja Kvosina gegn sjávarflóðum á hagkvæman hátt sem ekki veldur truflun á mannlífi á þessum mikilvæga stað. Eðlilegast væri að leggja áherslu á að verja Kvosina gegn minni flóðunum sem hafa tíðan endurkomutíma en ekki að reyna að verjast aftakaflóðum á borð við Básendaflóðið. Í dag eru flóð sem talin eru stór rúmlega 3 m og flóðaannálar sýna að þessi stærðargráða á flóðum er alls ekki óalgeng, með endurkomutíma í kringum 10 ár. Þetta eru flóðin sem skynsamlegast þykir að verjast. Miðað við væntanlega langtímaþróun sjávarstöðu má gera ráð fyrir að flóð af þessari stærðargráðu verði í kringum 3,8-4,4 m árið 2100.

Í skýrslunni eru skoðaðir þrír mismunandi kostir til að verja Kvosina fyrir sjávarflóðum. Kostirnir voru eftirfarandi: Færanlegar varnir, hækkun lands og lokun hafnarinnar. Af þessum kostum er hækkun lands talin vænlegasti kosturinn en hann felur í sér að nýta tækifærið þegar uppbygging á sér stað við Miðbakkann, Austurbakkann og Vesturbugt til þess að hækka hafnarbakkana á þessum svæðum og landhæð þar sem við á. Þessar aðgerðir gætu tryggt bæði Kvosinni og nýju byggingunum við höfnina vörn gegn sjávarflóðum. Hins vegar er niðurstaða skýslunnar sú að ekki sé hagkvæmt að fara út í aðgerðir til að verja Örfirsey fyrir sjávarflóðum en aftur á móti mælt með því að framtíðar uppbygging á þessu svæði verði aðlöguð þeirri staðreynd að flóð geti átt sér þar stað.