Flóðvarnir fyrir Kvosina
Verkefnið gengur út á að koma fram með nokkrar tillögur að útfræslu varna gegn sjávarflóði og fjalla um kosti þeirra og galla ásamt því að meta kostnað. Tillögurnar munu taka mið af núverandi byggð, áformum um uppbyggingu á svæðinu og það haft að leiðarljósi að trufla sem minnst mannlíf og starfsemi á þessu mikilvæga svæði í miðbæ Reykjavíkur.
Þekkt er að hætta er fyrir hendi á að sjór flæði á land á þessu svæði. Fyrir rúmum 200 árum varð mikið flóð sem kennt er við Básenda og gekk þá sjór á land víða. Ef slíkt flóð myndi endurtaka sig er talið að sjór gæti flætt um alla Kvosina, jafnvel alla leið inn að Norræna húsinu.
Horft verður til reynslu annarra þjóða af sambærilegum varnarmannvirkjum en víða um heim er þörf á að reisa og viðhalda miklum varnarmannvirkjum bæði vegna flóða í ám og frá sjó. Helst er horft til svæðisins frá austurjaðri Útvarpshússins gamla að og með Slippnum í vestri. Metið verður hvort mögulegt sé að nýta þær byggingar sem þarna eru til staðar sem hluta af vörnum en ljóst er að hluti varnanna þarf að vera færanlegur því umferð fólks þarf að vera greið um þetta svæði.
Ekki er um að ræða flóð sem á sér stað mjög skyndilega heldur er ávallt nokkur aðdragandi sem gefur færi á viðbrögðum. Því má segja að tilgangur varnanna sé í raun ekki að verja mannslíf heldur verðmæti, í sumum tilfellum mikil menningarverðmæti þar sem á svæðinu eru margar mikilvægar og merkilegar byggingar.