Fréttir


Fréttir

Forsetahjónin heimsækja EFLU í Abu Dhabi

24.11.2009

Ólafur Ragnar Grímsson forseti og Dorrit Moussaieff, forsetafrú heimsóttu Íslendinga sem eru að störfum í EMAL álverinu í Abu Dhabi þann 23.nóvember sl.

  • Forseti Íslands
  • Forseti Íslands

Eigendur EMAL tóku á móti forsetanum ásamt Youssef L. Wahba sem leiðir verkefnið fyrir hönd eigendanna.

Hann er Íslendingum að góðu kunnur því hann var rúm þrjú ár á Íslandi við uppbyggingu hjá Fjarðaáli.

Forsetinn kom við á skrifstofu Alstom (samvinnuaðili EFLU) þar sem tíu Íslendingar eru að störfum á vegum EFLU.

EFLA hefur unnið að verkefnum hjá EMAL í tvö ár og mun verða með mannskap á staðnum í minnst eitt ár í viðbót.

Hluti vinnunnar hefur farið fram á Íslandi en þar sem nú er komið að gangsetningu álversins vinna flestir þar.

Að verkefninu hafa komið um 15 Íslendingar alls auk 30 manna sem EFLA hefur ráðið sem undirverktaka á staðnum.

Verkefnin felast í allri hönnun rafkerfa og forritun á sjálfvirkni lofthreinsivirkja sem hreinsa loft frá kerjum og kerskálum.

EFLA hefur unnið að verkefnum í Sameinuðu furstadæmunum samfellt undanfarinn fjögur ár, í byrjun aðeins í DUBAL álverinu í Dubai en síðar einnig í EMAL álverinu í Abu Dhabi.

EFLA er með samninga um verkefni tíu mánuði fram í tímann og er gert ráð fyrir framhaldi vinnunnar.

Það var mikil ánægja og góð viðurkenning fyrir Íslendingana syðra að forsetahjónin heiðruðu þá með heimsókn sinni og fræddust á verkstað um vinnuframlag EFLU.

Erlend verkefni skipa nú stóran sess í starfsemi EFLU.

Í Dubai og Abu Dhabi eru verkefnin tímafrek og vinnuálag verulegt.

Álag á fjölskyldur starfsmanna er einnig mikið, bæði þær sem eftir sitja heima og á þær sem flytjast tímabundið búferlum suður eftir.

Samheldnin í hópnum ytra er mjög góð og fólkið gerir sér oft glaðan dag saman, t.d. við að horfa á heimsmeistarakeppni í strandfótbolta sem haldin er í Dubai þessa dagana.

Íslendingarnir hafa þurft að glíma við hitann sem er mestur frá júní fram í september, 45°-50°, og stundum sagt að "víkingarnir" séu við það að bráðna eins og ísjakar.