Fréttir


Fréttir

Forvarnir vegna rakavandamála

29.10.2019

EFLA leggur mikla áherslu á að efla forvarnir í tengslum við rakavandamál bygginga. Til að miðla þekkingu og skapa umræðugrundvöll heimsótti starfsfólk EFLU Tækniskólann og byggingarfulltrúa á Selfossi.

  • Forvarnir og rakaöryggi hjá EFLU
    Eiríkur Ástvald Magnússon, byggingarverkfræðingur hjá EFLU, hélt erindi um rakaöryggi.

Starfsfólk EFLU býr yfir mikilli þekkingu á rakavandamálum í byggingum og hvernig fyrirbyggja megi slíkt. Orsakir rakavandamála má oftast rekja til hönnunar, framkvæmda og efnisvals og síðast en ekki síst vegna notkunar og skorts á viðhaldi. Í mörgum tilfellum má fyrirbyggja kostnaðarsama galla strax á hönnunarstigi eða við framkvæmdir með litlum tilkostnaði. Til að koma í veg fyrir rakavandamál er því mikilvægt að fræða, miðla og deila þekkingu.

Upprennandi iðnaðarfólk

Í síðustu viku hitti EFLA nemendur í húsasmíði við Tækniskólann til að ræða rakaöryggi við hönnun og byggingaframkvæmdir. Heimsóknin var hugsuð sem grundvöllur fyrir umræður, þar sem EFLA hefur áhuga á að kynnast upprennandi fagmönnum í byggingariðnaði, þeirra reynslu og þekkingu á hvað reynist vel og hvað má betur fara. Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir og Eiríkur Magnússon, starfsfólk EFLU, fóru í heimsóknina og áttu gott samtal við nemendur um rakavandamál og forvarnir.

Áhugasamir byggingarfulltrúar

Föstudaginn 25. október var haldinn opinn umræðufundur á Selfossi fyrir byggingarfulltrúa til að ræða rakaöryggi við hönnun og framkvæmd bygginga. Þar héldu Eiríkur og Sylgja erindi um rakaöryggi í byggingum, byggingareðlisfræði og fóru yfir greinargerð um einangrun og raka. Einnig fjölluðu þau um hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér ef rakaskemmdir og mygla er til staðar í byggingum. 

Fundurinn var vel sóttur og sköpuðust góðar umræður um hönnun, framkvæmd og efnisval. Mikill áhugi var á umræðunni um uppbyggingu léttra þaka með þunnu loftbili á Íslandi og áhættu sem þeim getur fylgt. Einnig var fjallað um loftþéttleikamælingu á rakavörn sem mikilvægt atriði í rakaöryggi bygginga. Að lokum kom fram að stundum væri óljóst hvernig loftskipti í húsum eru tryggð með bestum hætti og að aukin fræðsla til notenda gæti komið sér vel.

Forvarnir og rakaöryggi hjá EFLUFundurinn á Selfossi var vel sóttur.

Forvarnir og rakaöryggi hjá EFLUEiríkur fjallaði um rakaöryggi í byggingum.