Fréttir


Fréttir

Framkvæmdum vegna göngubrúar um Kárastaðastíg lokið

24.8.2012

EFLA verkfræðistofa ásamt Studio Granda fengu fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni að göngubrú um Kárastaðastíg í Almannagjá í febrúar 2012.
  • Kárastaðastígur á Þingvöllum
    mynd fengin af vef FSR

Í mars samdi Þingvallanefnd við Sudio Granda og EFLU um verkhönnun, byggða á vinningstillögu þeirra. Verkefnið fólst í hönnun gönguleiðar og göngubrúar um Kárastaðastíg í Almannagjá.

Göngubrúin er upphaf gönguleiðarinnar um þinghelgina, þar sem enn má sjá sögulegar minjar og einstakar náttúrumyndanir. Mannvirkið er látlaust og tekur við af sveigðum norðurenda útsýnispalls á Hakinu, sveigir lítillega og lagar sig svo að sprungunni. Liggur göngubrúin yfir grynnsta hluta sprungusvæðis en til hliðar við dýpstu sprungurnar svo sjá má niður í myrkustu hyldýpi.

Brúarsmíðin hófst í lok maí 2012, SS verktakar sáu um smíði undirstaða og brúargólfs en Stálprýði ehf. smíðaði og setti upp handrið. Lengd brúarinnar þar sem hún liðast niður Almannagjá er um 63 m en breidd brúargólfsins er 2,60 m. Brúargólfið er úr íslensku sitkagreni sem unnið var hjá Skógrækt ríkisins í Skorradal úr rúmlega 50 ára gömlum skógi og sýnir möguleika til nýtingar íslenskra skóga í mannvirkjagerð. Handriðsnetið er strengt net úr ryðfríu stáli. Brúin var opnuð fyrir umferð í lok júli en framkvæmdum lauk í byrjun ágúst 2012.