Fréttir


Fréttir

Fjölsótt EFLU þing á Egilsstöðum

28.3.2017

Síðastliðinn miðvikudag fór fram EFLU þing á Egilsstöðum en yfirskrift málþingsins var: Áhrif hönnunar á heilnæmi bygginga. Markmið með EFLU þingi er að fræða og skapa grundvöll fyrir umræðu um samfélagsleg málefni.

  • EFLU þing á Egilsstöðum
    Frá vinstri, Ólafur Daníelsson, Óli Þór Jónsson, Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, Böðvar Bjarnason og Elis Benedikt Eiríksson.

Fyrirlesarar voru starfsmenn EFLU sem fjölluðu um málefni er snúa að bættri líðan í húsbyggingum. Fundarstjóri var Elis Benedikt frá EFLU Austurlandi.

Innivist og heilsa

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur og fagstjóri Hús og heilsu, fjallaði um innivist og loftgæði í byggingum og ræddi m.a. um mikilvægi þess að velja vönduð og vottuð byggingarefni. Þá sagði hún frá vistkerfinu og sambýli lífvera og áhrif rakaskemmda á heilsufar fólks. Einnig var fjallað um hvernig Norðmenn eru farnir að huga að bættum framkvæmdum yfir byggingartíma, þar með talið hvernig byggingarefni eru geymd og lekaprófun framkvæmd áður en innivinna hefst.

Sylgja benti á mikilvægi forvarna er varða rakaskemmdir og að þverfagleg umræða í samfélaginu þyrfti að eiga sér stað til að huga enn frekar að betri hönnun og smíði bygginga.

Innivist og loftræsing

Óli Þór Jónsson, verkfræðingur, sagði frá loftræsingu í byggingum og fjallaði í því sambandi um hita, raka og loftgæði. Í því sambandi var rætt um að raki og hreyfing lofts hefðu mikil áhrif á líðan fólks í byggingum. Óli Þór fjallaði um vélræna loftræsingu með varmaendurvinnslu útsogs og hvernig hægt væri að setja upp slíka loftræsingu í húsum.

Áhrif hönnunar á heilnæmi bygginga

Böðvar Bjarnason, byggingartæknifræðingur, gerði að umtalsefni sínu viðhald mannvirkja og ræddi m.a. um hvar myglu í húsum væri helst að finna. Einnig fjallaði hann um hvaða áhættusvæði í húsum varðandi leka þyrfti að fylgjast sérstaklega vel með. Böðvar tók dæmi um nokkur hús þar sem mygla var ekki sjáanleg og mælitæki náðu ekki að nema raka en um leið og klæðning var tekin frá fannst mikil mygla og raki.

Böðvar sagði einnig frá verkefni í grunnskóla Þórshafnar þar sem miklar lagfæringar voru gerðar á húsnæðinu sökum raka- og mygluskemmda sem hafði afar slæm áhrif á nemendur og kennara. Skemmst er frá að segja að eftir að viðgerðum lauk fækkaði veikindadögum um tæp 25% milli ára borið saman við fyrir og eftir viðgerð á húsnæðinu. Þá sýndi könnun með áberandi hætti aukna vellíðun nemenda.

Jafnframt var rætt um hvað hægt væri að gera varðandi viðhald á húsunum okkar en þar var m.a. rætt um að breyta þyrfti uppbyggingu húsa, hætta að einangra þau innan frá og auka notkun loftræsikerfa.

Innivist og hljóðhönnun

Ólafur Daníelsson, sviðsstjóri hljóðvistarsviðs, talaði um hljóðvist og hávaða í vinnurýmum og margskonar byggingum. Þar kom fram að hljóðvist rýma hefur mikil áhrif á líðan og afkastagetu notenda. Fjöldinn allur af rannsóknum hafa sýnt fram á neikvæð áhrif hávaða á t.d. streitu, svefntruflanir, hjarta- og æðasjúkdóma og áhrif á afkastagetu starfsmanna.

Ólafur benti á leiðir til að draga úr hávaða eins og að hafa góða hljóðeinangrun milli rýma, stuttan ómtíma, skilrúm, gæta að hljóðstigi frá tæknibúnaði og fleira.

EFLU þingið var afar vel sótt og sköpuðust heilmiklar umræður meðal þátttakenda málþingsins.  

Samhliða EFLU þingi á Egilsstöðum heimsóttu fyrirlesarar Reyðarfjörð og hittu starfsmenn Fjarðarbyggðar.