Fréttir


Fréttir

Fréttir úr austrinu

15.9.2010

Starfsmenn við smíði risaálversins í Dubai sendu þessa frétt. Sjá meira
  • Sól sest bak við tré

"Heilögum föstumánuði múslima, Ramadan, var að ljúka og fór hann ekki fram hjá starfsmönnum EFLU í Dubai. Á Ramadan má hvorki borða né drekka frá sólarupprás til sólseturs. Sem betur fer fyrir afköst okkar þá höfum við fengið að drekka og borða innan veggja EMAL-álversins því það telst til sérstakra svæða. Enda gæti verið erfitt fyrir ískalda Íslendinga að sleppa því að drekka nógan vökva í 45°C hita, svo ekki sé talað um að vinna við þessar aðstæður.
Ramadan byrjar og endar þegar nýtt tungl sést á himni og sérstök tunglskoðunarnefnd starfar og tilkynnir um upphafið og endinn. Á Ramadan er Kóraninn lesinn í heild sinni í öllum moskum borgarinnar og oft misreikna þeir tímann sem það tekur að lesa þannig að undir lok Ramadan ómar sönglesturinn úr bænahúsunum meira eða minna allan daginn.

Í lok síðustu viku lauk Ramadan og því var gefið frí síðasta vinnudag vikunnar, fimmtudag, og við tók svokölluð Eid Al-Fitr- hátíð sem jafngildir páskum í kristinni trú. Svo óheppilega vildi til að á miðvikudagskvöldið, áætlaðan lokadag Ramadan, sást ekki nýtt tungl sem þýddi að fastan lengdist hjá múslimunum um einn dag og var því gefið frí aftur á fyrsta vinnudegi vikunnar, sunnudegi.
Starfsmenn EFLU fengu þar með fjóra daga í helgarfrí þessa vikuna og slógu ekki hendi á móti því".