Fréttir

Frummatsskýrsla um Suðvesturlínu

19.5.2009

Frummatsskýrsla vegna fyrirhugaðrar styrkingar og endurbyggingar raforkuflutningskerfisins á Suðvesturlandi hefur verið send Skipulagsstofnun til athugunar og verða niðurstöður hennar kynntar hagsmunaðilum og almenningi á næstu vikum.

  • Suðvesturlína

Verkefnið tekur til meginflutningskerfis raforku frá Hellisheiði að Geithálsi og Hafnarfirði og áfram út á Reykjanes ásamt tengingu virkjana og orkunotenda og meginniðurstaða frummatsskýrslunnar er að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verði ásættanleg þegar á heildina er litið að teknu tilliti til ávinnings af línulögninni og þeirra mótvægisaðgerða sem gripið verður til.

Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og varðar beinlínis 12 sveitarfélög og þar með meirihluta landsmanna, enda hefur mikið verið lagt upp úr góðri samvinnu og samráði við skipulagsyfirvöld, sveitarstjórnir, landeigendur og aðra sem málið varðar við val á línuleiðinni og útfærslu þeirrar framkvæmdar sem lögð er til í frummatsskýrslunni.

Athugasemdafrestur til 2. júlí

EFLA verkfræðistofa hefur stýrt matsvinnunni undir verkstjórn Landsnets og hefur frummatsskýrslan nú verið send Skipulagsstofnun til athugunar.

Allir hafa rétt til að kynna sér framkvæmdina og leggja fram athugasemdir sem skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 2. júlí 2009 til Skipulagsstofnunar.