Fréttir


Fréttir

Fyrirhuguð risaframkvæmd LSH

5.4.2011

SPITAL er heiti hóps arkitekta- og verkfræðifyrirtækja sem tóku þátt í lokaðri samkeppni um deiliskipulag og byggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Fimm hópar tóku þátt í samkeppninni og skiluðu inn tillögum sínum í júní 2010. Tillaga SPITAL-hópsins bar sigur úr býtum.
  • Spítalatorgið
Í teyminu sem heitir SPITAL eru auk EFLU verkfræðistofu Ask arkitektar, Bjarni Snæbjörnsson arkitekt, Kanon arkitektar, Lagnatækni, Landark, Norconsult, RATIO arkitekter og Teiknistofan Tröð.

Samkeppnin var tvíþætt og tók til áfangaskipts skipulags lóðar Landspítala við Hringbraut í heild og líka til útfærslu á fyrsta áfanga spítalastarfsemi í 66 þúsund fermetra nýbyggingu sem skiptist í þrjá meginhluta:

Bráðakjarna með bráðamóttöku, myndgreiningu, gjörgæslu, skurðstofum og legudeildir með 180 rúmum sem öll eru í einbýli, sjúklingahótel með 80 herbergjum, rannsóknarbyggingu, bílastæðahús og kennslu- og skrifstofubyggingu fyrir Háskóla Íslands.

Við mat á innsendum  lausnum  var  m.a. litið til arkitektúrs, ytra- og innra skipulags, áfangaskiptingar, sveigjanleika, tækni og tæknikerfa, umhverfissjónarmiða, byggingarkostnaðar, rekstrarkostnaðar bygginga og heildarhagkvæmni starfseminnar.

Teymið mun vinna að hönnun verkefnisins fram að útboði en starfar að því loknu við verkefnisstjórn og hönnunarrýni með verkkaupa.

SPITAL hefur hafið vinnu við undirbúningsframkvæmdir á svæðinu sem fela í sér forhönnun á götum, veitum og lóð og rannsóknir, aðgengismál að núverandi byggingum o.fl..

Vistvæn nálgun er höfð að leiðarljósi við hönnun og byggingu nýja Landspítalans og sú krafa verður gerð til verktakans sem byggir mannvirkin að hann fái viðurkennda umhverfisvottun við lok framkvæmda. Hefur verið ákveðið að miða við breska BREEAM vottunarkerfið og þurfa mannvirkin að fá fjórar af fimm mögulegum stjörnum í því kerfi.

Vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar nýs Landspítala við Hringbraut er nú unnið að nýju deiliskipulagi fyrir svæðið. Samhliða er unnið að breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024. Verkefnislýsingar um hvernig staðið verður að skipulagsgerðinni og umhverfismati hafa verið lagðar fram hjá Skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkur.

Standa vonir til að framkvæmdir  geti hafist á síðari hluta árs 2011 og að þeim verði lokið á árinu 2016.