Fréttir


Fréttir

Gangsetning Búðarhálsstöðvar

6.3.2014

Búðarhálsstöð, nýjasta aflstöð Landsvirkjunar, var gangsett 7. mars 2014. Uppsett afl hennar er 95 MW og framleiðir hún um 585 GWst af rafmagni á ári inn á orkukerfi landsmanna.
  • Búðarhálsvirkjun
    Mynd sýnir inntaksmannvirki Búðarhálsvirkjunar.

Með stöðinni er virkjað áður ónýtt 40 metra fall vatns frá Hrauneyjafossstöð að Sultartangalóni og með tilkomu hennar má segja að búið sé að fullnýta fall frá Þórisvatni niður fyrir Búrfell.

Megintilhögun Búðarhálsstöðvar er þannig að tvær jarðvegsstíflur eru austan við Búðarháls skammt ofan við ármót Köldukvíslar og Tungnaár. Önnur stíflan þverar farveg Köldukvíslar og hin frávatn Hrauneyjafossstöðvar. Stíflurnar eru báðar um 25 metra háar þar sem þær eru hæstar, önnur þeirra um 1100 metra að lengd og hin um 170 metra löng. Stíflurnar mynda inntakslón Búðarhálsstöðvar, Sporðöldulón, og er stærð þess um 7 km2 að flatarmáli. Um 4 km löng aðrennslisgöng leiða vatnið frá inntaksvirki við Sporðöldulón til vesturs undir Búðarhálsinn að jöfnunarþró og inntaki við Sultartangalón. Tvær 60 m langar fallpípur úr stáli flytja vatnið frá inntaki að hverflum stöðvarinnar. Stuttur frárennslisskurður er frá stöðvarhúsinu og út í Sultartangalón.

Stöðvarhúsið, sem er steypt og að mestu ofanjarðar, hýsir tvær 47,5 MW vélasamstæður af Kaplan gerð sem henta vel þegar framleiða á rafmagn við fremur litla fallhæð en mikið vatnsstreymi. Vélaspennar stöðvarinnar eru staðsettir framan á stöðvarhúsinu og þaðan liggja háspennustrengir yfir í tengivirkisbyggingu Landsnets sem stendur sunnan við stöðvarhúsið. Frá tengivirkinu er orkan flutt með háspennulínu austur yfir Búðarháls að Hrauneyjafosslínu og tengist þar með landskerfinu.

Aðeins minniháttar verkþáttum er ólokið og í sumar sem og næsta ár verður farið í lokafrágang svæðisins og verkefnið fullklárað.

Hönnun Búðarhálsstöðvar var í höndum EFLU, Arkitektastofunnar OG, Verkíss, Mannvits og Landslags. Landsvirkjun og Hnit sáu um eftirlit með framkvæmdum.

Hlutverk EFLU fólst í að hanna öll byggingarmannvirki Búðarhálsstöðvar. EFLA hafði einnig yfirumsjón með annarri hönnun, allri samræmingu sem og yfirumsjón með allri áætlanagerð í þessu verkefni.